Bjarni Benediktsson, formaður sjálfstæðisflokksins hefur sent flokksfélögum sínum bréf til að hvetja þá til að mæta til mótmæla við þingsetninguna 1. október. Hann vísar til þess að óhætt sé fyrir holla sjálfstæðismenn að mótmæla af krafti enda "óljóst hvernig löggæslu við þingsetninguna verður háttað" eins og segir í bréfinu góða. Bjarni segir nauðsynlegt að sjálfstæðisflokkurinn komist til valda aftur, þrem árum eftir hrunið sem hann olli með tilheyrandi lífskjaraskerðingu, atvinnuleysi og mannlegum harmleik. Hann segir að sjálfstæðisflokkurinn hafi svörin við eigin afglöpum. Hann segir þjóðina eiga þá einu von til framtíðar að Bjarni Benediktsson, Þorgerður Katrín Gunarsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarsson, Illugi Gunnarsson, Tryggvi Þór Herbertsson, Ólöf Nordal, Jón Gunnarsson, Einar Kristinn Guðfinnsson, Ásbjörn Óttarsson, Pétur Blöndal, Birgir Ármansson, Kristján Þór Júlíusson, Ragnheiður Elín Árnadóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Árni Johnesen komist strax til valda. Þarna innan um er ágætis fólk. En kjarninn er beintengdur hruninu og mestu pólitísku spillingu sem íslensk þjóð hefur mátt þola. Skilaboðin frá Bjarna til félaga sinna eru skýr: Sjálfstæðismenn! Mætum á Austurvöll, löggan mætir líklega ekki og látum finna fyrir okkur. Fellum ríkisstjórnina og komum Flokknum aftur til valda. Hér kemur svo bréfið góða sem Bjarni sendi félögum sínum í sjálfstæðisflokknum fyrr í dag: Kæri samherji. Á morgun 1. október verður Alþingi Íslendinga sett. Það skapar nýtt tækifæri til að leiða Ísland inn á réttar brautir. Stefnu- og árangursleysi ríkisstjórnarinnar hefur reynst þjóðinni dýrkeypt. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur frá upphafi kjörtímabilsins hafnað stefnu ríkisstjórnarinnar og er skýr valkostur. Við höfum staðið fyrir tillögum til að bæta hag heimilanna og fyrirtækjanna í landinu. Okkar leið hefur verið sú að skapa störf og segja atvinnuleysinu stríð á hendur. Við viljum lækka skatta, auka fjárfestingar, framkvæmdir og verðmætasköpun. Hér þarf að auka hagvöxt og bæta lífskjörin. Við vitum að tækifærin, lausnirnar og leiðir til uppbyggingar eru til staðar. Þess vegna mun þingflokkur sjálfstæðismanna leggja fram enn metnaðarfyllri efnahagsáætlun við upphaf þingsins sem nú gengur í garð og leggja sitt af mörkum til þess að rjúfa þá stöðnun sem hér hefur ríkt alltof lengi. Verði það ekki gert er hætt við að fólk missi trú á framtíðina, fyllist vantrú á að geta náð endum saman og búið við mannsæmandi lífskjör. Boðað hefur verið til mótmæla við þingsetninguna á laugardaginn. Lögreglumenn hafa gefist upp á aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar og óljóst er hvernig löggæslu við þingsetninguna verður háttað. Ég hvet fólk til samstöðu með lögreglunni með því að sýna störfum þeirra virðingu. Það er sjálfsagt að halda stefnumálum sínum á lofti við þingsetninguna, en ég bið alla þá sem það ætla að gera að ganga friðsamlega til verks. Krafa Sjálfstæðisflokksins er skýr. Það þarf nýja stjórnarstefnu, ryðja þarf nýjar brautir og boða á tafarlaust til kosninga.