RÚV hefur í gegnum tíðina birt margar skemmtilegar og skrýtnar fréttir af landsbyggðinni. Þeim er yfirleitt skotið inn undir lok fréttatíma, svona eins og til að létta mönnum lund eftir allan bölmóðin sem má undan kom. Ég hef alltaf skemmt mér yfir þessum fréttum enda fylgja þeim yfirleitt skondnar athugasemdir og fallegt bros þular sem gefur til kynna að þrátt fyrir allt og allt þá sé lífið ekki eins djöfullegt og ætla mætti. Dæmi um svona fréttir eru um tvíhöfða lamb, fugl sem gerði sér hreiður undir vélarhlíf bíls, ung hjón sem ákveða að hefja búsakap á afskekktum stað, trillukarl sem lætur sig kvótakerfið litlu varða, skóli með fimm nemendum o.s.frv.
Í gær bar það hinsvegar þannig við að skrýtna og skondna fréttin kom ekki af landsbyggðinni heldur frá Reykjavík, sem er mjög sjaldgæft. Hún var um að Velferðarnefnd sjálfstæðisflokksins hefði haldið fund um velferðarmál.
Velferðarnefnd sjálfstæðisflokksins!
Hverjum hefði dottið það í hug?