Sagt er frá því í fréttum í dag að Illugi Gunnarsson muni snúa til þings að nýju á næstunni eftir að hafa stigið til hliðar tímabundið vegna stjórnarsetu sinnar að hinum fræga Sjóði 9 hjá Glitni. Lögmannsstofan LEX hefur komist að þeirri niðurstöðu að ekkert hafi verið óeðlilegt við stjórn sjóðsins og farið þar í einu og öllu að samkvæmt reglum um slíka sjóði. Niðurstaða LEX er engin dómsúrskurður heldur álit lögmanna en ekki er ólíklegt að málið endi fyrir dómi. LEX menn komast að eftirfarandi í áliti sínu: „Miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir og raktar eru hér að framan í kafla I er ekki sjáanlegt að neitt hafi verið athugavert við fjárfestingarheimildir, fjárfestingastefnu eða samsetningu eigna Sjóðs 9 miðað við þágildandi lög og reglur.“ Þeir bæta því reyndar síðan við að jafnvel þótt brotið hafi verið gegn tilteknum lögum geti það varla talist vera meiriháttar.
En um hvað snérist og snýst þetta mál? Í stuttu máli að fjárfestingar sjóðsins hafi ekki verið samkvæmd reglum, hagsmunir smærri fjárfesta látnir víkja fyrir þeim stærri sem flestir voru eigendur bankans og að fjárfestum hafi verið mismunað rétt áður en Glitnir féll, m.a. með háum greiðslum (10 - 11 milljarða) úr ríkissjóði að ósk eigenda bankans, stjórnarmanna, stjórnarþingmanna og ráðherra sem lögðu blessun sína yfir það allt saman.
Talsverð umfjöllun var um Sjóð 9 á sínum tíma, dæmi um það má sjá hér, hér, hér, hér og miklu víðar.
Rannsóknarnefnd Alþingis fjallar ítarlega um þetta mál í sinni merku skýrslu. Umfjöllun um Sjóð 9 er má sjá í fjórða hefti skýrslunna, frá og með bls. 145. Ég held að það sé ágætt tilefni til þess núna að rifja þá umfjöllun aðeins upp.
Náin tengsl bankans og skuldara
Á bls. 151 segir þetta:
Stór hluti stærstu skuldara sjóðsins var jafnframt tengdur Glitni banka, móðurfélagi Glitnis sjóða, gegnum eignatengsl og/eða stórar áhættuskuldbindingar. Á sömu síðu má sjá yfirlit yfir verðbréfaeign Sjóðs 9 í óskráðum verðbréfum, eftir útgefendum. Athyglisverð lesning.
Mikið fjárfest í Baugi
Á bls. 155 má sjá þetta:
Í september 2008 fjárfesti Sjóður 9 áfram í víxlum útgefnum af Baugi þrátt fyrir að félagið hefði skömmu áður ekki getað staðið í skilum með skuldbindingar sínar við sjóðinn. Í lok ágúst 2008 var skráð markaðsvirði Baugsbréfa í sjóðnum 11,5 milljarðar króna. Í lok septembermánaðar hafði staða sjóðsins í Baugsbréfum aukist um rúman milljarð króna í 12,5 milljarða (alls um 12% af heildarverðmæti sjóðsins eða 18% fyrir utan innlán). Því var ekki aðeins um að ræða framlengingu á ógreiddum víxlum útgefnum af Baugi heldur jókst heildarfjárfesting sjóðsins um rúman milljarð króna milli mánaða.
Frá apríl 2007, eftir að Baugur varð stór hluthafi í Glitni banka, jukust fjárfestingar Sjóðs 9 í Baugi jafnt og þétt fram undir lok þess árs. Mest átti sjóðurinn af verðbréfum útgefnum af félaginu í lok nóvember 2007 eða jafnvirði 13,5 milljarða króna (9,7% af heildareignum sjóðsins). Fjárfesting Sjóðs 1 í Baugi náði hámarki í maí 2008 en þá átti sjóðurinn bréf að andvirði 3,3 milljarða króna (6,6% af heildareignum sjóðsins). Í lok september 2008 átti Sjóður 9 Baugsbréf fyrir 12,5 milljarða (12,9% af heildareignum sjóðsins), Sjóður 1 fyrir 1,8 milljarða (4% af heildareignum sjóðsins) og Sjóður 11 fyrir 238 milljónir króna (3,4% af heildareignum sjóðsins).
Stjórn Sjóðs 9
Á bls. 195 kemur fram hverjir sátu í stjórn Sjóðs 9:
Árið 2007 var stjórnin skipuð Almari Guðmundssyni, formanni stjórnar og starfsmanni Glitnis, Gunnari Jónssyni hrl., varaformanni, sem var varamaður í stjórn Glitnis banka frá og með 20. febrúar 2007, Illuga Gunnarssyni, alþingismanni, og Katrínu Oddsdóttur, starfsmanni bankans. Árið 2008 var stjórnin skipuð með sama hætti nema að Eggert Þór Kristófersson leysti Almar Guðmundsson af hólmi sem stjórnarformaður.
Svolítill umboðsvandi en ekki til ama!
Á bls. 232 má sjá hvernig ráðherrar og þingmenn höfðu áhrif á greiðslur fyrir bréf eigendanna:
Glitnir sendi forsætisráðherra og fjármálaráðherra minnisblað 30. september 2008 þar sem fjallað var um peningamarkaðssjóði og skuldabréfasjóði Glitnis sjóða og lagt til að Glitnir banki keypti skuldabréf útgefin af Stoðum af Glitni sjóðum að lágmarki fyrir 50% af uppreiknuðu markaðssvirði. Að sögn Lárusar Welding fundaði hann með Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, um þessi uppkaup. Lárus kvaðst hafa verið í „svolitlum umboðsvanda“ þar sem í hans huga hefði ríkið verið við það að verða eigandi. Í símtali við Geir hefði komið fram að Geir teldi þetta erfitt mál en hann hefði gefið í skyn: „Jú, ætli það verði ekki að gera þetta.“ Þá hefði Árni sagst ekki myndu setja sig upp á móti málinu. Að sögn Lárusar voru greiddir 10 eða 11 milljarðar króna fyrir skuldabréfin. Síðan segir í skýrslu Lárusar: „[...] þetta var að mínu mati ekki svakaleg fjárhæð og aðalatriðið var að halda sjóðunum gangandi og reyna að viðhalda bankanum, halda áfram að halda bankanum gangandi. Þetta er svo aftur tekið á stjórnarfundi um kvöldið, þar sem ég lýsi því að ég sé að vísu búinn að ræða þetta við ráðherrana, forsætis- og fjármálaráðherra. Tryggvi Þór var búinn að sitja líkan fund með okkur um daginn með Illuga, stjórnarmanni í þessu í sjóðunum. Illugi náttúrulega lagði mikla áherslu á að þetta yrði leyst og þetta er samþykkt af stjórninni og svo gert, tilkynnt í fréttunum klukkan tíu þetta kvöld, þetta var þriðjudagskvöld.“ Að sögn Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, voru áform bankans um að kaupa tiltekin bréf úr sjóðunum kynnt þeim fjármálaráðherra. Forsvarsmenn Glitnis hefðu lagt mikla áherslu á að þetta yrði gert og að þeir fjármálaráðherra hefðu ekki séð ástæðu til að amast við því.
Margt fleira má finna um málið í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis sem þörf er á að rifja upp. Skýrslan segir þó ekkert til um sekt eða sakleysi þeirra sem stjórnuðu sjóðnum. Ekkert frekar en lögfræðiálitið frá LEX.
Það er rétt að hafa það í huga.