Svör við spurningum Einars Kristins Guðfinnssonar um töpuð útlán eru enn einn áfellisdómur yfir því fjármálakerfi sem sjálfstæðisflokkurinn innleiddi hér á landi. Það er ekki nóg með að hluti þess, þ.e. sk. gengistryggð lán voru ólögleg, heldur hefur nú verið dregið fram í dagsljósið frekar en áður að gríðarlegt umfang vafasmara útlána í bankakerfinu var byggt á loftkenndri froðu sem rann niður í svelginn þegar á reyndi. 503 milljarðar króna töpuðust í fjármálakerfinu á tveim árum. Þetta er upphæð sem nemur heildarútgjöldum íslenska ríkisins á yfirstandandi ári ásamt vöxtum. Stærsti hluti þessara glötuðu fjármuna er vegna glórulausra lána til annarra en einstaklinga og heimila sem sýnir betur en margt annað hvað þessum aðilum var mismunað á „góðærisárunum.“ Heimilin og einstaklingarnir urðu skilyrðislaust að leggja fram tryggingar fyrir sínum lánum og sanna greiðslugetu sína á meðan litlar sem engar kröfur voru gerðar til lögaðila, fyrirtækja og félaga sem stofnuð voru utan um lántökurnar.
Einar Kristinn á þakkir skyldar fyrir að kalla eftir þessum upplýsingum. Ég hvet hann til að ræða þær á næsta þingflokksfundi sjálfstæðisflokksins. Bæði um útlán og afskriftir.
Þeim er málið skylt – frá öllum hliðum.