Í gær skrifaði ég pistil hér á síðuna þar sem ég lagði út frá orðum Björns Zoëga forstjóra LSH sem hann skrifaði á heimasíðu spítalans. Í pistli mínum tók ég undir orð Björns enda tel ég hann hafa nokkuð til síns máls. Það blasir við að draga verður úr útgjöldum ríkisins. Pólitísk mistök fortíðarinnar hafa séð fyrir því. Um það verður ekki deilt með neinum rökum. Hvernig gerum við það? Hvernig ráðstöfum við færri krónum þannig að það komi sem minnst niður á þeirri þjónustu sem við teljum mörg hver að ríkið eigi að veita? Er það með því að skera jafnt og þétt niður á öllum stofnunum ríkisins, stórum sem smáum, þar til þær verða margar hverjar nánast óstarfhæfar og/eða vanbúnar til að gegna hlutverkum sínum? Eða ættum við að gera það þannig að við endurskoðum skipulagið hjá okkur með það að markmiði að nýta takmarkaða fjármuni sem best og vera betur í stakk búinn að til veita góða þjónustu? Eða eigum við að einkavæða almannaþjónustuna eins og stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn leggur til að verði gert (bls.3, liður 7: "... auka svigrúm fyrir starfsemi einkaaðila ...")?
Ég er eindregið þeirrar skoðunar að samhliða óumflýjanlegum samdrætti í útgjöldum verðum við að finna fleiri leiðir til að nýta fjármunina sem best og um leið að viðhalda þeirri almananþjónustu sem ég tel að meirihluti þjóðarinnar vilji fá. Þá er ég helst að tala um heilbrigðis- mennta- og velferðarmál. Það getum við m.a. gert með því að sameina stofnanir og nýta þannig mannauð, tæki og tól betur en nú er gert. Ef við hinsvegar stöndum vörð um óbreytt kerfi, sömu uppstillingu og verið hefur árum og áratugum saman, munum við hægt og bítandi draga máttinn úr hverri einingu fyrir sig. Landsbyggðin mun fara illa út úr því. Höfuðborgarsvæðið mun fara illa út úr því. Sjúkrahúsin á Húsavík, Akureyri, Siglufirði, Sauðárkróki, Blönduósi, Ísafirði, Patreksfirði, Akranesi, Reykjavík, Reykjanesbæ, Selfossi, Vestmannaeyjum, Norðfirði og allar hinar heilbrigðisstofnanirnar munu líða fyrir það. Sama á við um alla framhaldsskólana. Sama á við um alla Háskólana. Sama á við um alla grunnskólana.
Stjórnendur og starfsfólk LSH hafa unnið afrek við að ná utan um rekstur spítalans. Svipaða sögu má segja um stjórnendur og stofnendur fleiri stofnana á landinu. LSH sem áður var rekin með halla ár eftir ár er nú rekin innan ramma fjárlaga og það í miðri kreppunni. Það sem Björn Zoëga er hinsvegar að segja er í rauninni þetta: Við göngum ekki öllu lengra þann veg sem þegar hefur verið farin. Ég tek undir það með honum. En til þess verðum við að geta átt rökræðu um þessi mál.
Er til of mikils ætlast að fara fram á það?