Björn Zoëga LSH segir í pistli á heimasíðu spítalans með áframhaldandi niðurskurður í rekstri muni eitthvað láta undan í þjónustu hans frá því sem nú er. Björn segir sömuleiðis að engin opinber stofnun hafi þurft að skera jafn mikið niður (í krónum talið líklega) en LSH og til þessa hafi það tekist án þess að það hafi komið niður á sjúklingum lengri biðlistum.
Þetta er sennilega allt rétt hjá Birni Zoëga og þetta á við um flestar sjúkrastofnanir um land allt. Með áframhaldandi óumflýjanlegum niðurskurði í útgjöldum ríkisins munum við hér eftir fara að veikja þjónustu við íbúa landsins nema gripið verði til annarra rástafana samhliða. Við gerð fjárlaga yfirstandandi árs var lagt upp með umfangsmiklar skipulagsbreytingar í heilbrigðiskerfinu í þeim tilgangi m.a. að viðhalda góðri þjónustu fyrir minni fjármuni. Viðbrögðin voru ekki góð. Talsmaður stjórnarandstöðunnar í ríkisfjármálum sagðist ætla að rústa frumvarpinu og barðist af heift gegn allri hagræðingu í heilbrigðiskerfinu. Nokkrir stjórnarliðar bognuðu undan álaginu sem því fylgir að þurf að taka ákvarðanir af þessu tagi og því fór sem fór. Í dag stöndum við því í þeim sporum að vera að draga úr útgjöldum til sömu stofnanna fjórða árið í röð án þess að grípa til viðeigandi varnaraðgerða.
Á meðan stjórnmálamennirnir vilja ekki eða geta ekki komið á nauðsynlegum skipulagsbreytingum í heilbrigðiskerfinu mun það gerast sem Björn Zoëga er að segja – þjónustan mun versna og heilbrigðisstofnanir munu veikjast. Þetta á víðar við, s.s. í menntakerfinu og velferðarmálum.
Ég er ósammála þeim sem segja að rangt sé að endurskipuleggja samfélag sem á við efnahagslega erfiðleika að stríða. Einmitt þá reynir á okkur og hvernig við nýtum takmarkaða fjármuni til að halda uppi góðri þjónustu í stað þess að draga eingöngu úr þjónustunni.
Nú er einmitt sá tími framundan sem taka þarf ákvarðanir um framtíðina byggðar á þeim veruleika sem við lifum í.