Líkt og aðstoðarmaður fjármálaráðherra benti á í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í dag að þá feilreiknaði Sigmundur Davíð sig illilega í gagnrýni sinni á halla ríkissjóðs. Fólst villa Sigmundar í því að hann taldi að óinnheimtar tekjur ríkissjóðs hefðu einhver áhrif á hallarekstur ríkissjóðs fyrir 2010. Þar með missti gagnrýni hans algjörlega marks enda grundvallaðist hún á vanþekkingu hans á uppgjöri ríkissjóðs. Það er svo sem ekki nýtt af nálinni af hálfu stjórnarandstöðunnar að opinbera fákunnáttu sína á þessum vettvangi eins og þeir muna sem nenna að fylgjast með svona arga þrasi.
En það er fleira úr málflutningi framsóknarformannsins sem ástæða er til að vekja athygli á eins og ber þar hæst áhyggjur hans af óreglulegum liðum sem bókfærðir eru í Ríkisreikningi eins og afskriftir Íbúðalánasjóðs upp á 33 milljarða króna. Skoðum það aðeins betur. Framsóknarflokkurinn réð lögum og lofum í Íbúðalánasajóði fram að hruni og stýrði honum af mikilli röggsemi lóðbeint í þrot. Frægastar varð flokkurinn á þessum vettvangi fyrir kosningaloforð sín og auglýsingar um 90% lán hjá sjóðnum sem ýttu undir þenslu á húsnæðismarkaði og á mikla sök á erfiðri stöðu sjóðsins nú. Á þetta allt er bent á í Rannsóknarskýrslu Alþingis sem nú virðist flestum gleymd. Svo má ekki gleyma því heldur að ríkisábyrgð er að baki Íbúðalánasjóði.
Nú, nú - eftir hrun blasti miklar afskriftir hjá Íbúðalánasjóði vegna fortíðarvanda hans og sömuleiðis vegna þeirra skuldaúrræða sem sjóðurinn hefur boðið upp á frá hruni. Í þessu sambandi er gaman að rifja upp að Sigmundur Davíð og Framsóknarflokkurinn vildu ganga miklu lengra en þetta og færa niður öll húsnæðislán um 20% eins og frægt varð. Fyrir Íbúðalánsjóð hefði það þýtt afskriftir upp á um 120 milljarða eða yfir 100 milljörðum meiri afskriftir á sjóðsins en nú er gert ráð fyrir að verði. M.ö.o. hefði Sigmundur Davíð fengið að ráða þá hefði halli ríkissjóðs tvöfaldast eða farið úr því að vera 123 milljarðar króna árið 2010 í 223 milljarða eða á nákvæmlega sama stað og halli ríkissjóðs var komin í undir lok árs 2008. Hefði Sigmundur Davíð því fengið einhverju ráðið um ríkisfjármálin væru þau komin aftur á hrunreitinn. En sem betur fer urðu það ekki örlög þessarar efnahagslega þjáðu þjóðar að þurfa að lenda í slíkum ósköpum.
Nóg er nú samt.