Samkvæmt ríkisreikningi ársins 2010 var halli á ríkissjóði 123 milljarðar á síðasta ári eða 41 milljarði meiri en ráð var fyrir gert. Aðal ástæða þessa munar er 33 milljarða króna framlag til Íbúðalánasjóðs sem m.a. er ætlað að standa undir útgjöldum sjóðsins vegna aðgerða við skuldaniðurfærslu auk þess sem að styrkja eiginfjárstöðu sjóðsins sem fór í rauninni á hausinn í hruninu.
Þetta slær Bjarna Benediktsson formann sjálfstæðisflokksins illa sem segir að dregin sé upp hver falsmyndin af annarri af stöðu ríkissjóðs. Það er skrýtin pirringur hjá félaga Bjarna – ekki síst vegna þess að hann lagðist ekki gegn breytingartillögu um aukið framlag til Íbúðalánasjóð í fjáraukalögum 2010 frekar en aðrir góðir sjálfstæðismenn þegar þeir höfðu færi á því. Bjarni og félagar hans í Flokknum studdu heldur ekki frumvarp til laga um heimild Íbúðalánsjóðs til að færa niður veðkröfur sjóðsins sem 33 milljörðunum var m.a. ætlað að standa undir. Þeir studdu því hvorki aukið framlag til niðurfærslu skulda á íbúðalánum né frumvarp um heimild Íbúðalánasjóðs til slíks. Samt var eftir því kallað um allt samfélagið, líka af hálfu sjálfstæðisflokksins sem er málið nokkuð skilt. Það er því erfitt að átta sig á því hvað Bjarni og Flokkurinn vill eða vill ekki í þessum málum frekar en öðrum.
Þess utan er rétt að nefna að staða ríkissjóðs utan hinna óreglulegu liða er meira en vel viðunandi miðað við stöðuna eins og hún var þegar Bjarni og félagar flæmdust frá völdum á sínum tíma. Ríkisreikningurinn sýnir að hvað reglubundinn rekstur ríkisins varðar náðist sá árangur sem að var stefnt í aðhaldi ríkisfjármála. Sá árangur náðist án aðstoðar sjálfstæðisflokksins og þvert gegn hans vilja.
Árangurinn í ríkisfjármálum á Íslandi er raunar fáheyrður miðað við þá stöðu sem uppi var hér við hrunið og hefur vakið verðskuldaða athygli utan landsteinanna sem birtist m.a. í nýlegu vel heppnuðu skuldabréfaútboði ríkissjóðs. Staða annarra ríkja í Evrópu um þessar mundir sýnir betur en margt annað að slíkur árangur er langt frá því sjálfsagður og sennilega vart nokkur trúað því að Ísland myndi ná honum þegar hrunið skall á okkur fyrir tæpum þrem árum. Þetta hefur ekki verið fyrirhafnarlaust né auðvelt en á að vera okkur hvatning til að halda áfram á sömu braut þar til bætt hefur verið fyrir mistök fyrri ára.
Í því sambandi má benda á afkomu ríkissjóðs fyrstu 6 mánuði yfirstandandi árs. Þar kemur m.a. fram að innheimtar tekjur eru nærri 5 milljarða umfram áætlun en útgjöldin um 3 milljarðar undir áætlun.
Ætli Bjarni sé líka pirraður yfir því?