Kristinn H Gunnarsson sendir mér heldur betur tóninn á dögunum í grein sinni á vef Bæarins besta og í Vikudegi. Hann heldur því fram að ég standi gegn öllum breytingum á stjórn fiskveiða. Hann segir mig vera í liði með froðufellandi útgerðarmönnum og afturhaldsflokkum sem engar breytingar vilji sjá á kvótakerfinu. Hann telur mig vera pólitískan skósvein hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Hann segir það skoðun mína að helst eigi að nýta Vestfjarðarmið af frystitogurum frá Ólafsfirði og Akureyri. Hann segir að ég vilji að fáir auðmenn og bankar raki til sín milljarðatugum út úr greininni. Hann fullyrðir að ég telji að fáir eigi að njóta hagnaðarins í sjávarútvegi á meðan almenningur verði látinn bera tjón sitt bótalaust. Hann segir mig gera lítið úr áhrifum kvótakerfisins á Vestfirði. Hann hnýtir í mig fyrir að fagna því að áfram verði unninn fiskur í frystihúsinu á Akureyri.
En Kristinn H. Gunnarsson styður mál sitt engum rökum. Hann færir lesendum sínum engan rökstuðning fyrir þessum fullyrðingum sínum. Það er vegna þess að þau eru ekki til.
Varla er þau að finna í atkvæðagreiðslum mínum á Alþingi um þær breytingar sem þegar hafa verið gerðar á kvótakerfinu. En síður í umræðum á þingi um þau mál. Hvað þá að Kristinn geti fært rök fyrir máli sínu með tilvitnunum í greinaskrif mín um þennan málaflokk eða aðra aðkomu að greininni í gegnum árin.
Ég hef óskað eftir því að við reynum öll að vera aðeins frjórri í hugsun hvað þessi mál varðar en hingað í þeirri von að við finnum betri leiðir með að markmiði að nýti fiskistofnana við landið með sem hagkvæmustum fyrir land og þjóð. Ef það glæpurinn sem ég er sekur um að mati Kristins – að vilja leita nýrra leiða þegar þær sem þegar hafa verið farnar hafa ekki skilað tilætluðum árangri – þá gengst ég við honum og játa mig sekann? Grein Kristins hefur sannfært mig enn frekar en áður um nauðsyn þess að taka umræðuna um sjávarútveginn yfir á annan og betri vettvang.
Ég er síðan meira en til í að rökræða við Kristinn H Gunnarsson og alla aðra um stjórn fiskveiða og önnur sjávarútvegsmál en sé hvorki tilgang né markmið með því að gera það með þeim hætti sem Kristinn gerir í grein sinni.
Þrátt fyrir allt erum við Kristinn H Gunnarsson sammála um að víst þurfi að breyta kvótakerfinu þó okkur kunni að greina að einhverju leiti á um leiðir. Fyrir þeim skoðunum mínum getur Kristinn, fundið ágætis heimildir.