Í kvöld verður í sjónvarpinu sýnd heimildamynd um sjómannahljómsveitina Roðlaust og beinlaust. Í myndinni er farið yfir sögu sveitarinnar – só far – jafnt til sjós og lands auk þess sem gefin er ágætis innsýn í líf hljómsveitar meðlima í litlu sjávarþorpi við eina af nyrstu ströndum þessa lands.
Hljómsveitin Roðlaust og beinlaust er eins nálægt því að vera natural sjómannahljómsveit og hægt er að hugsa sér. Kjarninn úr hljómsveitini er samansettur úr áhöfninni á togaranum Kleifabergi ÓF-2, einni harðsæknustu togaraáhöfn landsins sem syngur sína eigin söngva um sjómannslífið og tekur jafnt á súru sem sætu í þeim efnum. Hljómsveitin hefur gefið út fjóra fullvaxna geisladiska auk nokkurra minni sem allir hafa selst ágætlega en afrakstur sölunnar hefur runnið til Slysavarnaskóla sjómanna, eina skólans sem segja má að hafi náð að hemja alla meðlimi sveitarinnar. Diskarnir eru Bráðabirgðalög (2001), Brælublús (2003), Sjómannasöngvar (2006) og Þung er nú báran (2008). Allir diskarnir hafa verið hljóðritaðir hjá MogoMusic í Ólafsfirði og gefnir út af útgáfufélaginu Beinlaus biti.
Það hefur lítið farið fyrir hljómsveitinni Roðlaust og beinlaust síðustu misserin. Þó má benda á að auk heimildarmyndarinnar sem sýnd verður á RÚV í kvöld, á hljómsveitin lag á nýju þriggja diska sjómannalagaalbúmi sem Sena gaf út á dögunum.
Það má því segja að þessi merka sjómannahljómsveit lifi nú á fornri frægð eins og reyndar á við um svo marga aðra. En meðan að minningin yljar manni um hjartaræturnar gerir það bara ekkert til.
Hvað framtíðin mun færa hljómsveitinni Roðlaust og beinlaust veit enginn frekar en með annað.
Þangað til njótum við þess sem liðið er.