Nytjarök er hugtak yfir það þegar hagsmunir heildarinnar eru látnir ráða frekar en sérhagsmunir. Nytjarökin eru því einhverskonar skynsemisrök. Eða eitthvað í þá áttina. Með því að byggja ákvarðanir á nytjarökum frekar en sérhagsmunum er líklegra að þær ákvarðanir komi fleirum frekar en fáum til góða. Allt of oft falla stjórnmálamenn í þá gildru að láta þrönga sérhagsmuni ráða ferðum sínum og í stað þess að horfa til heildarmyndarinnar. Við þurfum ekki að horfa langt inn í fortíðina til að finna sorgleg dæmi um slíkt.
Umræðan um sjávarútveginn og ákvarðanir um leikreglur í greininni hafa nær oftast verið byggðar á sérhagsmunum í gegnum árin. Það á við um stærstu hagsmunaaðila í greininni og það á við um ráðandi stjórnmálaflokka. En sjávarútvegurinn skiptir öðrum greinum fremur þjóðina gríðarlegu máli og ákvarðanir honum tengdar hafa nær alltaf mikil áhrif á samfélagið allt.
Nú stendur fyrir dyrum að breyta leikreglunum í sjávarútvegi. Þá reynir á okkur stjórnmálamenn öðrum fremur að láta ekki þrönga flokkshagsmuni (sérhagsmuni) ráða ákvörðunum okkar. Við megum ekki falla í á gryfju að grípa til ráðstafana sem uppfylla aðeins þær kröfur að falla vel í kramið hjá kjósendum og stuðningsmönnum eða vera til þess líklegar að skila okkur áfram í næstu kosningum. Við getum ekki leyft okkur að byggja ákvarðanir okkar á eigin sérhagsmunum eða löngunum ef þær standast ekki þá skoðun að vera þjóðinni allir til gagns og skila henni örugglega fram á veginn.
Um þetta snýst málið í raun og veru. Ef við látum ekki nytjarökin ráða ákvörðunum okkar við endurskoðun laga um stjórn fiskveiða þá verður sú ákvörðun ekki góð heldur mun hún bera öll einkenni sérhagsmuna sem alltaf eru vond rök. Of afleiðingarnar samkvæmt því.