Þættinum hefur borist bréf ...

Í lok síðasta árs skrifaði ég pistil hér á síðuna um styrkjamál sjálfstæðisflokksins og þingmanna flokksins og leyndina sem yfir þeim hefur hvílt. Nú hefur mér borist bréf frá lögmanni Guðlaugs Þórs Þórðarsonar þar sem hann segir að skrif mín hafi verið ærumeiðandi aðdróttanir og rógburður í garð skjólstæðings síns. Bréf lögmannsins má sjá með því að smella á myndina hér til hliðar.         
Nú er þetta svo sem hvorki í fyrsta né síðasta skipti sem því er haldið fram að þingmaðurinn hafi þegið mútur. Stefán Friðrik Stefánsson, ágætur sjálfstæðismaður á Akureyri skrifaði t.d. þetta hér um málið og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra þetta hér. Á Svipunni má sjá þetta hér og í þessum pistli eru nokkrir þingmenn sagðir hafa þegið mútur. Mun fleiri skrif þessa efnis má finna á veraldarvefnum ef eftir því er leitað.
En hvað um það. Guðlaugur Þór hefur ákveðið að leita réttar síns gagnvart mér og við því verð ég að bregðast með einhverjum hætti.
Það eru einhverjir möguleikar í stöðunni sem vert er að skoða í því sambandi:
Í fyrsta lagi gæti ég einfaldlega dregið orð mín til baka og beðist afsökunar. Þar með væri málið væntanlega dautt af minni hálfu án þess þó að niðurstaða væri komin í það. Þetta gæti ég auðvitað gert þó svo að ég sé þeirrar skoðunar þeir sem taki við háum fjárframlögum frá einstökum aðilum hljóti að vera þeim á einhvern hátt skuldbundnir eða háðir. Þannig losnaði sömuleiðis frá málinu sem er væntanlega tapað af minni hálfu þar sem ég get ekki sannað að um mútur hafi verið að ræða og hef ekkert haldbært um það. Ennþá. Hefði því betur átt að hafa fyrirvara á þeirri fullyrðingu minni í áðurnefndum pistli.
Kosturinn við þetta er að ég losnaði frá málinu án kostnaðar eða meira vesens. Ég hef svo sem áður þurft að draga til baka eða biðjast afsökunar á einhverju sem ég hef sagt eða gert en hefði betur látið ógert. Það er bara hinn eðlilegasti hlutur og sjálfsagt má finna fleri tilefni til þess af minni hálfu. Ókosturinn er sá að málið myndi ekki klárast heldur hanga óleyst í loftinu eitthvað inn í framtíðina. Það þarf svo sem ekki að vera ókostur frekar en maður vill, a.m.k. ekki fyrir okkur pólitíska andstæðinga sjálfstæðisflokksins.


Hinsvegar gæti ég bara boðið Guðlaugi Þór að fara með málið fyrir dóm. Þessi leið bíður upp á margra skemmtilega fleti. Fyrir það fyrsta þá yrði máið skoðað ofan í kjölinn. Það hefðu nú bara allir gott af því. Fyrir dómara kæmu þá væntanlega þeir sem ákváðu að láta þingmanninn fá peninga og þyrftu að útskýra hversvegna þeir gerðu það og hvort þeir ætluðust til einhvers í staðinn. Ekki síður væri athyglisvert að heyra hversvegna þeir ákváðu að láta þennan tiltekna þingmann en ekki aðra njóta góðvildar sinnar. Hvað sáu þeir í honum sem þeir sáu ekki í öðrum? Líklega þyrfti þingmaðurinn að aflétta trúnaði á öllum styrkveitendum sínum sem hann hefur ekki enn gert eftir því sem ég best veit. Öðruvísi er líklega ekki hægt að upplýsa málið. Ekki er heldur ólíklegt að þáverandi forystumenn sjálfstæðisflokksins yrðu kallaðir fyrir dómarann til að fara yfir styrkjamál flokksins sjálfs sem umræddur þingmaður hafði víst forgöngu um á sínum tíma. Ekki er ósennilegt að einhver tengsl kunni að vera þar á milli. Sjálfur myndi ég telja að fyrir dómi þyrfti að skilgreina mútur í þessu sambandi og leita til þess bæra aðila eftir slíkri skilgreiningu. Væntanlega þá til háskólasamfélagsins, siðfræðinga, stjórnmálafræðinga og fleiri slíkra. Þá kæmi líklega einhver niðurstaða í það hvernig 25 milljóna króna framlög til eins frambjóðanda yrðu skilgreind. Hingað til hefur þetta verið sagt vera óviðeigandi, óeðlilegt, óþægilegt eða eitthvað í þá áttina. En einhversstaðar hlýtur samt línan að liggja.
Besti kosturinn við þessa leið er sá að styrkjamál sjálfstæðisflokksins og þingmanna hans yrðu skoðuð ofan í kjölinn fyrir dómi. Niðurstaðan, óháð því hvort ég yrði sýknaður eða fundinn sekur, yrði líklega sú að það heyrði sögunni til að þingmenn og stjórnmálaflokkar tækju aftur við styrkjum af þeirri sortinn sem sjálfstæðisflokkurinn og margir þingmenn hans gerðu. Það yrði ekki svo lítill árangur.
Stærsti ókosturinn er hinsvegar sá að þetta yrði andskotanum dýrar fyrir mig – ef ég tapaði.
Vill einhver styrkja mig :)