Mér finnst Ólöf Nordal varaformaður sjálfstæðisflokksins vera skemmtilegur þingmaður og meina það í fullri alvöru. Svo segir hún oft svo skemmtilega hluti. Allir muna eftir því þegar hún sagði Rannsóknarskýrslu Alþingis vera að þvælast fyrir sjálfstæðismönnum og ekki síður þegar hún sagði það svo sannarlega óvenjulegt að formaður sjáflstæðisflokksins tæki þjóðarhagsmuni framar hagsmunum flokksins. Nú bætir hún einum skemmtilegum ummælum í safnið sitt og nú um viðbrögð matsfyrirtækja við niðurstöðu Icesav-kosninganna á dögunum: Eftirfarandi setning hlýtur að teljast með betri gullkornum þess ömurlega máls: „Þetta kemur ekkert sérstaklega á óvart. [...] Það var aldrei okkar málflutningur að eitthvað óskaplegt myndi gerast ef Icesave yrði hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu.“
Sem sagt: Sjálfstæðisflokkurinn var með þetta á hreinu. Það var ekki hans málflutningur að matsfyrirtækin myndu hreyfa við lánshæfismati Íslands. Flokkurinn var ekki búinn að gefa neitt út um að staða Íslands á alþjóðavettvangi myndi bíða frekari hnekki á hvorn veginn sem kosninginn færi. Þetta átti heimurinn auðvitað að vita. Þess vegna gleðjumst við nú öll yfir því með sjálfstæðisflokknum að Ísland er áfram talið óhæft á fjármálamarkaði, rúið öllu trausti og engin erlend lánastofnun né erlend ríki vilja koma nálægt okkur nema þá með töngum.
Sjálfstæðisflokkurinn sagði reyndar svo til ekki neitt í aðdraganda kosninganna, heldur skreið í felur frá málinu, með heiðarlegum undantekningum þó. Formaðurinn og varaformaðurinn hurfu nánast af yfirborði jarðar en eru nú farin að láta aftur í sér heyra.
Sem betur fer, því það er svo gaman, þó þau eigi það til að ofmeta sig á hinum pólitíska vettvangi.