Hlýtur þetta ekki að teljast til góðra frétta í sjávarútvegi? Fiskur af erlendum miðum unnin á Íslandi.
Það er reyndar ekki svo langt síðan fiskur af erlendum miðum var unnin í íslenskum fiskvinnsluhúsum. Rússneskir togarar lönduð talsverðu magni af heilfrystum þorski hér á sínum tíma sem var þíddur upp, unninn og seldur úr landi. Þessi fiskur var veiddur í Barentshafi og skipti talsverðu máli hér á landi eins og sjá má í fréttum frá þeim tíma. Eins var heilfrystur rússafiskur fluttur hingað til lands með flutningaskipum framundir það allra síðasta og reyndar alveg fram til ársins 2007, ef ekki lengur. Það fóru tvennar sögur ef ekki þrennar af gæðum aflans og sömuleiðis af því undir hvaða formerkjum hann var síðan seldur úr landi. Mér finnst eins og ekki séu liðin 20 ára síðan þetta var gert en sjálfsagt er samt farið að slaga vel upp í það.
Baldvin er frægt aflaskip, smiðaður fyrir Samherja á sínum tíma og gerður út frá Akureyri undir nafninu Baldvin Þorsteinsson EA - 10. Guðmundur Jónsson var lengst af skipstjóri á skipinu hér heima en hann er nú skipstjóri á Vilhelm Þorsteinssyni. Guðmundur er einn af mestu aflamönnum Íslands fyrr og síðar og virðist engu skipta hvað hann tekur sér fyrir hendur á þeim vettvangi.
Síðast þegar ég vissi var Dalvíkingurinn Sigurður Kristjánsson skipstjóri á Baldvini og því við hæfi að skipið komi nú til löndunar á Dalvík.
En hvað um það! Nú virðist sem við séum bæði farin að flytja ferskan fisk út og inn, frá og til ESB löndum.