Helgin hefur verið uppfull af ljótum fréttum sem þó gefa ágæta mynd af þeirri pólitísku orustu sem á sér stað um Ísland. Til að byrja með heimtuðu Samtök atvinnulífsins að þeir stjórnarflokkar sem samtökin hafa stutt hvað mest í gegnum árin yrðu kallaðir til valda aftur í þeim tilgangi að tryggja áframhaldandi óbreytt fiskveiðistjórnunarkerfi. SA menn hafa vanist því í gegnum árin að hafa haft tryggan aðgang að stjórnvöldum og ráðskast með þau að eigin vild. Sá tími er nú liðin eins og SA er að átta sig á. Sjaldan eða aldrei hafa Samtök atvinnulífsins komið fram svo grímulaus eða berað sig jafn rækilega og þau gera nú. Það á jafnt við um hagsmunagæsluna sem og tengslin við þá stjórnmálaflokka sem hér eiga í hlut, sjálfstæðis- og framsóknarflokk. Það fer ekki á milli hvaða hlutverki þeir hafa og genga enn fyrir Samtök atvinnulífsins.
Næsta frétt þessari reyndar keimlík kom úr herbúðum LÍÚ. Í hádegisfréttum RÚV sagði framkvæmdastjóri klúbbsins að líklega væri i forsætisráðherra landsins í starfi sem hún réði ekki við vegna þess að ekki væri búið að koma á nýjum leikreglum um stjórn fiskveiða sem LÍÚ væru þóknanlegar. Það er eins og gorgeirinn í framkvæmdastjóranum hafi stigið honum til höfuðs og valdið þar einhverjum skemmdum. Eða hefur mönnum þar á bæ fundist sem þeirra hugmyndir í þessum málum færu saman við hugmyndir þjóðarinnar? Hvort heldur hinn kokvíði framkvæmdastjóri að ummæli hans séu líklegri til að leysa mál eða herða hnúta?
Að síðustu var sló síðan Morgunblaðið öll fyrri met í sóðaskap og illmælgi með „skopmyndateikningu“ af þingmanni sem setti þjóðarhag ofar flokkshag í atkvæðagreiðslu um vantraust á ríkisstjórnina á dögunum. Það er reyndar ekki algengt að þingmenn úr stjórnarandstöðu geri slíkt eins og fræg ummæli varaformanns sjálfstæðisflokksins vitna um í þeim efnum.
Í ljósi þess sem að framan greinir er ótrúlegt að hafa orðið vitni af því að til eru þeir þingmenn af vinstri væng stjórnmálanna sem vilja leggja sitt lóð á vogaskálarnar til að koma núverandi stjórnvöldum frá og fulltrúum Samtaka atvinnulífsins aftur til valda.
Hvað gengur þeim til?
Sér Morgunblaðið ekkert skoplegt við það?