Bjarni Benediktsson formaður sjálfstæðisflokksins er í pólitískum vanda staddur. Hann tók þá djörfu ákvörðun að styðja Icesave-málið á þingi og gerði þannig m.a. tilraun til að leiða flokkinn inn í nýja tíma, undan pólitísku oki fortíðarinnar. Það tókst ekki. Bjarni varð undir í baráttunni við gömlu forystusveit flokksins, harðlínumannanna, sem enn virðast hafa ótrúlegt tök á flokknum og flokksmönnum. Ef einhver þarf að endurnýja pólitískt umboð sitt í kjölfar kosninganna þá er það formaður sjálfstæðisflokksins. Hann nýtur ekki trausts í eigin röðum og hefur ekki þá stöðu sem formaður í stjórnarandstöðu þarf nauðsynlega að hafa t.d. inn á Alþingi sem alvöru mótvægi við stjórnarmeirihluta.
Það undarlega er hinsvegar að Bjarni Benediktsson þarf á stjórnarmeirihlutanum á þingi að halda til að eiga sér viðreisnar von. Hann verður að finna sér pólitíska andstæðinga til að berjast við og skapa sér þannig stöðu innan síns eigin flokks. Að öllu jöfnu ættu þeir andstæðingar að koma úr röðum stjórnarliða. Að öðrum kosti mun öll athyglin beinast að innanflokksátökum og forystuvanda sjálfstæðisflokksins.
Það er því ekki síst undir stjórnarmeirihlutanum komið hvort Bjarna verður boðið upp í þau pólitísku átök sem hann þarf á að halda til að styrkja stöðu sína eða hvort hann verður skilin eftir á berangri í innanflokksslagsmálum við sitt eigið fólk.
Spennandi!