Á 35 ára sjómannsferli mínum get ég fullyrt að strákarnir á Kleifaberginu ÓF-2 hafi verið harðskeyttast áhöfnin sem ég var samferða á þeim tíma. Það gekk stundum eitt og annað á og blés oft hressilega þegar mönnum þótti ástæða til að láta í sér heyra. Þeir voru svo sem ekki allir perluvinir eða sammála um lífið og tilveruna. Ekkert frekar en aðir. En þegar á reyndi voru þeir sem einn maður og gengu án nokkurs hiks til þeirra verka sem þurfti að vinna hverju sinni. Það kom aldrei fyrir að skipið væri frá veiðum eða vinnslan stöðvaðist af þeirra sökum. það hefur örugglega ekki alltaf verið gaman að mæta á vaktina og standa frammi fyrir þeim verkefnum sem blöstu við hverju sinni. Aðkoman var ekki alltaf geðsleg og morgunverkin voru svo sannarlega ekki alltaf þau sem menn óskuðu sér. En þau voru unnin hratt og vel þrátt fyrir allt. Annað var ekki í boði – nema þá að leggja niður laupana og gefast upp. Láta aðra um verkin. Það gerðist aldrei og hefur enn ekki gerst. Áhöfnin stóð alltaf saman um að láta hjólin snúast, jafnt á dekki, í vél eða brú. Þessvegna er áhöfnin á Kleifaberginu ein farsælasta áhöfn togaraflotans og þetta gamla skip ávallt í fremstu röð.
Þannig getur það verið – ef maður vill.