Davíð Oddsson fyrrverandi formaður sjálfstæðisflokkssin, fyrrverandi forsætisráðherra og fyrrverandi Seðlabankastjóri segir í viðtali við Viðskiptablaðið að Englandsbanki hafi ekki ætlað að gera þá kröfu að innstæður á Icesave-reikningunum yrðu endurgreiddar af íslendingum. Vitnar hann þar til símtals sem hann átti við Mervyn King bankastjóra Seðlabanka Bretlands og á að hafa lofað slíku fyrir hönd Breta. Davíðs segist hafa orðið þakklátur þeim breska greiðanum.
Árni M. Mathiesen fyrrverandi fjármálaráðherra sjálfstæðisflokksins segir í yfirheyrslum hjá rannsóknarnefnd Alþingis (bls. 95) að Davíð hafi á fundi þeirra tveggja lesið endurrit af símtali sínu við Mervyn King og túlkað það þannig að sá Breski hafi „svona eiginlega verið að leggja blessun sína“ yfir aðgerðir ríkisstjórnar sjálfstæðisflokksins við að skipta bönkunum upp. Davíð fullvissaði Mervyn King um að þeir tveir væru að tala saman í fullum trúnaði eða eins og segir í rannsóknarskýrslunni „because we are talking 100% in secrecy and private.“ Í viðtalinu við Viðskiptablaðið segir Davíð að „við (Seðlabankinn) vorum ekki vanir að taka svona samtöl upp en gerðum það í þetta skipti einhverra hluta vegna.“
Davíð túlkaði símtal sitt við bankastjóra Seðlabanka Bretlands þannig að Bretar myndu ekki innheimta Icesave-skuldina.
Árni M. Mathiesen fannst Davíð leggja of mikið upp úr orðum Mervyn King enda væri það ekki hans að samþykkja slíka hluti, „jafnvel þótt hann sé seðlabankastjóri,“ það væri annarra að taka ákvörðun um það. Og Árni bætir við: „Ég hugsa að hann hafi kannski ekki verið ósáttur við þessa aðgerð sem verið var að gera svo fremi sem að við greiddum eitthvað upp í þetta (Icesave) allavegana.“
Miðað við þau gögn sem fyrir liggja og miðað við sögu og stöðu þeirra tveggja sem þarna töluðu saman í síma til viðbótar skilningi annarra á umræddu símtali myndi ég fara varlega í að túlka það með þeim hætti sem fyrrverandi formaður sjálfstæðisflokksins, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrrverandi Seðlabankastjóri Íslands og núverandi ritstjóri Morgunblaðsins hefur gert.
Annars má lesa ágæta og skemmtilega greiningu á málinu hér.