Það hefur ekki farið á milli mála að óróleiki er í ríkisstjórnarsamstarfi Vinstri grænna og Samfylkingar eftir að þrír þingmenn Vinstri grænna ákváðu að styðja ekki fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Sú afstaða er næst því að lýsa yfir vantrausti á sitjandi ríkisstjórn, á eftir beinni vantraustyfirlýsingu. Þau Lilja Mósesdóttir, Atli Gíslason og Ásmundur Einar Daðason sendu frá sér yfirlýsingu í gær þar sem þau fara fram með stóryrðum gagnvart félögum sínum, þ.á m. mér. Undir því er erfitt að sitja og reyndar algjörlega óþarft. Því er meira en sjálfsagt að leiðrétta ýmsar villur og rangfærslur í málflutningi þeirra þremenninga og er af nógu að taka.
Í Speglinum í dag segir Atli Gíslason að ekki hafi verið tekin málefnaleg umræða um tillögur þeirra þremenninga innan Vinstri grænna. Því er til að svara að einn þremenningana situr í fjárlaganefnd og hefði verið í lófa lagið að leggja fram tillögur á þeim vettvangi. En það gerði hann aldrei. Atli Gíslason var utan þings í fríi stærsta hluta þess tíma sem fjárlagafrumvarpið var í umræðu í nefndum þingsins. Hann og þau þremenningar lögðu mjög ófullburða tillögur um nánast nýtt fjárlagafrumvarp, daginn áður en önnur umræða um frumvarpið hófst á Alþingi. Lilja Mósesdóttir sagði sig frá þeim störfum í hópi sem þingflokkurinn fól henni að starfa í við að undirbúa fjárlagagerð næsta árs. Það er oft gott að líta sér nær áður en maður gagnrýnir aðra.
Lilja Mósesdóttir er efnahagslegur leiðtogi þeirra þremenninga. Í Kastljósinu í kvöld fór hún með endalausa þulu af rangindum og ósannindum, jafnt um menn sem málefni. Hér er brugðist við nokkrum þeirra.
Fullyrðing Lilju Mósesdóttur:
„Hefði viljað koma mínum sjónarmiðum á framfæri. Fékk ekki undirtektir við hugmyndir mínar.“
Staðreynd: Lilja sig úr ríkisfjármálahópnum sem átti að sjá um samdrátt í rekstri ríkisins ekki tekjur. Sagði sig þar með frá því að koma sínum hugmyndum á framfæri eða fá um þær rökræðu.
Fullyrðing Lilju Mósesdóttur:
„Það er venja að kynna fjárlagafrumvarp í þingflokkum.“
Staðreynd: Það er ekki venja að kynna fjárlagafrumvarp í heild sinni í þingflokkum eða bera hann undir þingflokka. Það var hinsvegar margsinnis fundað um einstaka liði fjárlagafrumvarpsins í þingflokknum frá síðasta vori og fram í september og Lilja Mósesdóttir sat flesta þá fundi.
Fullyrðing Lilju Mósesdóttur:
„Skattlagning á séreignarsparnað hefur ekki verið rædd í þingflokknum.“
Staðreynd: Málið hefur margsinnis verið rædd í þingflokknum, síðast á fundi þingflokks 23. nóvember ásamt utan að komandi sérfræðingi um málið en Lilja mætti ekki til þess fundar. 12 af 15 þingmönnum flokksins ósammála Lilju Mósesdóttur um þetta mál. Tillaga um skattlagningu á lífeyrissparnað féll í atkvæðagreiðslu á Alþingi í vikunni. Það er ekki þingmeirihluti fyrir málinu.
Fullyrðing Lilju Mósesdóttur:
„Það ríkir foringja- og flokksræði í Vinstri grænum.“
Staðreynd: Líklega hafa aldrei fleiri þingmenn haft tækifæri til að koma að mótun fjárlagfrumvarps en að þessu sinni. Fjölmargir þingmenn ásamt ráðherrum flokksins unnu að gerð frumvarpsins, þ.á m. Lilja en hún sagði sig fljótlega frá þeirri vinnu. 12 af 15 þingmönnum á öður máli en Lilja Mósesdóttir og hafa stutt það vinnulagið og málið sjálft. Flokksræðið er ekki meira en svo að engin tillaga borin upp af þingmanni var samþykkt á síðasta flokksráðfundi flokksins á meðan allar tillögur bornar upp af „óbreyttum“ flokksmönnum voru samþykktar.
Hvaða hugtak er notað yfir það þegar fólk neitar að starfa með öðrum nema gegn því að fá öllu sínum framgengt?