Sjálfstæðismenn eru í sínum allra besta gír þessa dagana. Til að byrja með lögðu þeir fram tillögur í efnahags- og atvinnumálum sem var ágætt innlegg í íslenska pólitík. Fyrir það fyrsta skerpur þeir með tillögugerð sinni línurnar með því að sína fram á að enn eru til harðsvíraðir hægrimenn á Íslandi sem eru tilbúnir að standa sína plikt og verja sína hægri stefnu hvernig em heimurinn hvolfist eða fer. Hver hefði annars trúað því að nokkur íslenskur stjórnmálaflokkur myndi hafa þá djörfung til að bera að leggja fram tillögur um flata skatta á há sem lága, lækkun gjalda á fyrirtæki og fjármagnseigendur, einkavæðingu í heilbrigðis- og menntakerfinu auk kolgrárrar stóriðjustefnu, líkt og sjálfstæðisflokkurinn gerir núna á tveggja ára afmæli hrunsins? Það þarf annaðhvort mikinn pólitískan kjark í slíkt eða þá, sem líklegra er, að menn viti ekki alveg hvað þeir eru að gera. Getur það verið að þrátt fyrir að hafa haldið tvo landsfundi frá hruni, skipt um formann og varaformann og endurnýjað forystusveit sína, hafi sjálfstæðisflokkurinn enn ekkert lært af hruninu og leggi þess vegna fram óbreytta stefnu í efnahags- og atvinnumálum? Sömu stefnuna og flokkurinn fylgdi áratugum saman og leiddi þjóðina á endanum í efnahagslegt öngstræti. Það er engu líkara en svo sé.
Og nú snúast sjálfstæðsmenn af krafti gegn samkomulagi ríkisstjórnarinnar og suðurnesjamanna um atvinnumál á suðurnesjum. Finna því allt til foráttu og halda áfram að telja kjarkinn úr fólki. Það skal aldrei verða að atvinnulífið á suðurnesjum komist á lappirnar með tilstuðlan ríkisstjórnar Vinstri grænna og Samfylkingar, fái sjálfstæðismenn nokkru um það ráðið.
Á sínum tíma skildi sjálfstæðisflokkurinn atvinnulífið á Reykjanesi eftir í fullkomnu uppnámi þegar Bandaríski herinn fór úr landi. Þó svo að það hafi blasað við hverjum sem er á þeim tíma hverjar afleiðingar þess yrðu fyrir atvinnulífið á svæðinu, brást þáverandi ríkisstjórn sjálfstæðisflokks og framsóknar ekki við með nokkrum hætti til að verja íbúa Reykjaness eða undirbúa þá fyrir það sem kom í kjölfarið. Þannig lagði sjálfstæðisflokkurinn í raun grunn að því atvinnu- og efnahagsástand sem hefur verið viðvarandi á suðurnesjum allt frá þeim tíma. Þeirra ábyrgð er því mikil þó svo þeir vilji ekki kannast við hana frekar en önnur afrek sín í atvinnu- og efnahagsmálum.
Í þessu ljósi er framganga sjálfstæðismanna á Alþingi og tillögugerð þeirra úr öllu samhengi við það sem er að gerast í samfélaginu öllu og ekki hvað síst við samfélag suðurnesjamanna.
Var við öðru að búast?