Stjórnarandsstaðan virðist vera að gugna á því að koma að sameiginlegum lausnum jafnt á skuldavanda heimilanna sem og við endurreisn atvinnulífsins. Bjarni Benediktsson formaður sjálfstæðisflokksins spyr sjálfan sig þess hversvegna í ósköpunum flokkurinn hann ætti að koma til liðs við ríkisstjórnina og þjóðina við þau verk. Sjálfstæðisflokkurinn er jú bara stjórnarandstöðuflokkur og hefur því sem slíkur engar skyldur til að koma að þessum málum að mati Bjarna. Til hvers ætti ég í stjórnarandstöðu að ganga til samstarfs við ríkisstjórnina og gera málamiðlanir um mínar tillögur, sagði formaður sjálfstæðisflokksins, ábúðarfullur á svip, eftir að hann rauk á dyr í gær. Dálítið sérkennileg yfirlýsing af hendi formanns þessa gamla valda flokks í ljósi sögunnar. En hvað um það. Þingflokksformaður framsóknarflokksins talaði í svipaðir tóntegund framan af en svo fór laglínan að taka á sig aðra mynd eftir því sem leið á daginn. Til að byrja með sagði Gunnar Bragi það undarlegt af ríkisstjórninni að vera að leita eftir samstarfi við stjórnarandstöðuna um þessi mál, ekki þýddi að treysta alltaf á að andstaðan væri til í slíkt samstarf. Svo sem margt til í því hjá Gunnari Braga. En svo kom tilboðið frá framsókn um áframhaldandi aðkomu flokksins að vandamálum fólksins í landinu, því auðvitað vilja þeir eitthvað fyrir sinn snúð. Að því leitinu hefur eðli framsóknar lítið breyst. Gunnar Bragi segir að þeir framsóknarmenn muni nú íhuga stöðuna og segir síðan: „Við þurfum við að horfa fram í tímann, hvernig við ætlum að láta hlutina ganga næstu árin, og ég sé ekki eins og ástandið er í dag að það gangi án þess að breyta ríkisstjórninni, draga fleiri til ábyrgðar og taka þá um leið inn fleiri tillögur og hugmyndir.“ Hvað er nú þetta? „… breyta ríkisstjórninni, draga fleiri til ábyrgðar …“ Er formaður þingflokks framsóknarflokksins að segja að framsóknarflokkurinn vilji komast í ríkisstjórn og það sé í raun skilyrði fyrir áframhaldandi aðkomu flokksins að þeim verkefnum sem þarf að vinna? Hvernig á annars að skilja þessi orð „ breyta ríkisstjórninni, draga fleiri til ábyrgðar“??
Það skyldi þá aldrei verða að framsókn væri nú til í slaginn sem hún kom sér undan í ársbyrjun 2009? Það væri svo sem ekki það versta sem gæti gerst. Ég myndi í það minnsta ekki kvíða því að starfa með Gunnari Braga þeim ágæta manni og fleiru góðu framsóknarfólki á nýjum vettvangi ef það væri í boði. Framsókn þyrfti reyndar að hressa aðeins upp á pólitíska ásjónu sína og skipta um gír á nokkrum sviðum en það er eitthvað sem flokksmenn ættu ekki að eiga í erfiðleikum með að gera ef vilji er til þess.
Nú bíðum við bara eftir næsta leik. Hann gæti verið leikinn á mánudaginn eftir því sem þingflokksformaður framsóknar segir.