Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi varaformaður sjálfstæðisflokksins skrifar furðulega grein á Pressunni í dag. Í greininni leggur hún út frá því að ákvörðun Alþingis um að kalla landsdóm saman til að rétta yfir meintum afglöpum og embættisfærslum fyrrum formanns flokksins, séu fyrst og fremst pólitísk réttarhöld. Varaformaðurinn segir þetta minna sig á þær aðferðir sem viðurkenndar voru í kommúnistaríkjum við að kála pólitískum óvinum og segir að auki að niðurstaða Alþingis komi reyndar ekki á óvart í ljósi fortíðar þeirra einstaklinga sem eru í ríkisstjórn eða styðji hana.
Þorgerður Katrín er föst í því hjólfari sem ég hélt að enginn spólaði lengur í nema General Björn Bjarnason fyrrverandi samráðherra hennar í Hrunstjórninni. „Kommúnistar, kommúnistar, pólitískar aftökur“, hrópa þau nú í öllum tóntegundum, pólitíska parið Þorgerður Katrín og General Björn.
En hver er þeirra pólitíska fortíð sem þau vilja alls ekki að verði réttað yfir? Í ljós hefur komið undir þeirra verndarvæng þróaðist ein mesta pólitíska spilling sem um getur hjá nokkru vestrænu ríki á síðari tímum. Auðæfum landsins var undir þeirra stjórn skipt á milli vildarvina flokksins, jafnt auðlindum lands og sjávar sem sameiginlegum eignum þjóðarinnar. Pólitísk spilling gegnsýrði stjórnkerfið allt, frá grunni og upp í rjáfur. Þorgerður Katrín sagði eitt sinn að hún hefði dýrkað jörðina sem einn af fyrrum formönnum flokksins þóknaðist að setja fótspor sín á og hún hafi fylgt honum í einu og öllu í blindri trú. Var einhver að tala um stjórnunarhætti í kommúnustaríkjum? Undir stjórn Þorgerðar Katrínar og sjálfstæðisflokksins varð Ísland nánast gjaldþrota ríki. Efnahagskerfi landsins hrundi til grunna. Almenningur í landinu mun eiga um sárt að binda af þeim sökum árum og jafnvel áratugum saman. Og þá er talað um pólitískar ofsóknir af hálfu sjálfstæðismanna sem ekki vilja gera upp sína ljótu pólitísku fortíð.
Ákvörðun Alþingis hefur ekkert með pólitík að gera, heldur fyrst og síðast réttlæti og ekkert annað en réttlæti. Það réttlæti felst m.a. í því að gera hrunið upp í sinni víðtækustu mynd. Réttlætið getur falist í því að forystumaður sjálfstæðisflokksins verður fundinn sekur um embættisafglöp sem kostuðu þjóðina miklar fjárhæðir og færði lífkjör almennings mörg ár aftur í tíman og þau geta líka falist í því að forystumaður sjálfstæðisflokksins verði sýknaður af öllum ásökunum. Niðurstaða Landsdóms mun skera úr um þann þátt málsins. Það líkar Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrrum ráðherra Hrunstjórnarinnar ekki. Það er úr takt við þau vinnubrögð sem tíðkuðust á hennar valdatíma þegar pólitískar hreingerningar fóru fram með reglulegum hætti og Flokkurinn gróðursetti pólitíska vildarvini sína um stjórnkerfið allt með skelfilegum afleiðingum fyrir íslenska þjóð.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrum varaformaður sjálfstæðisflokksins virðist sakna þess tíma þegar lífið var svo einfalt að eingöngu þurfti að gæta þess að stíga ekki út fyrir sporin sem foringinn sjálfur skildi eftir sig á jörðinni sem hún dýrkaði svo mjög.