Íslenska landsliðið í knattspyrnu hefur nú fallið niður um 21 sæti á styrkleikalista FIFA. Liðið vermir nú 100. sætið næst á eftir Jórdaníu og Uzbekistan og rétt ofan við Sudan og Tailand. Það þykir ekkert sérstakt að vera í 100. sæti eins og gefur að skilja og ekki síður þegar niðurleiðin virðist vera á áður óþekktum hraða, 21 sæti milli mælinga. En þegar betur er að gáð eru ljósir fletir á málinu. Alls eru 203 lið á FIFA listanum og því er Ísland rétt ofan við miðju á styrkleikalistanum sem er bara ekki svo slæmt. Litla landið norður við heimskautsbaug er ofan við miðju allra liða heims í knattspyrnu, a.m.k. og var 21 sæti ofar fyrir nokkrum dögum. Þess ber líka að geta að þegar allt var á niðurleið í íslensku efnahagslífi haustið 2008, rauk landsliðið upp styrkleikalistann á milli mælinga – um 21 sæti! Það er því algjörlega óþarfi að fara á taugum þó fallið virðist hátt í augnablikinu, hlutirnir eru fljótir að breytast. Neðst á FIFA listanum er Papua New Guinea sem féll um eitt sæti milli mælinga. Leiðin liggur aðeins upp hjá þeim úr þessu.
Til að forðast misskilning þá er verið að tala um karla landsliðið en konurnar eru á allt öðru kaliberi sem ekki verður fjallað um hér að sinni.