Guðbjartur Hannesson tók við ráðherraembætti í morgun, og það engu smá ráðuneyti. Honum var falið nýtt ráðuneyti, heilbrigðis- félags- og tryggingarmálaráðuneyti og annast sameiningu þeirra ráðuneyta sem til þarf og alls undibúnings til þess að þetta mikilvæga ráðuneyti verði sem best úr garði gert. Þetta er mikið verk og ekki á valdi hvers sem er að höndla slík mál svo vel fari. Þess vegna er það mikið gleðiefni að Guðbjarti Hannessyni hafi verið falið verkið. Undanfarið ár hef ég átt mikið og náið samstarf við Guðbjart í tengslum við störf mín á Alþingi. Strax í byrjun kjörtímabilsins lágu leiðir okkar saman í fjárlaganefnd, hann sem formaður og ég sem varaformaður. Okkur var falið að leiða starf sem þá var sett af stað við endurskipulagningu ríkisfjármálanna sem raunar fólst í því að gildandi fjárlög þess árs voru opnuð og stillt upp á nýtt eftir því sem það var hægt. Sú vinna bar mikinn árangur eins og fram hefur komið og sést í rekstri ríkisins. Saman tókumst við á við Icesave-málið og saman var okkur falið að endurskoða lög um stjórn fiskveiða sem nú er lokið. Því til viðbótar vann ég náið með Guðbjarti við fjárlaga gerðina síðasta haust og á þeim vettvangi höfum við sömuleiðis starfað saman fram á þennan dag við undirbúning fjárlaga næsta árs. Í öllum þessum störfum og er þó ekki allt upp talið, hefur aldrei borið skugga á samstarf mitt við Guðbjart og hann hefur vaxið af öllum sínum verkum. Guðbjartur er einstaklega samstarfsgóður og hefur mikla yfirsýn yfir verkefnin sem hann hefur tekist á hendur. Guðbjartur Hannesson fær ekkert nema góð meðmæli frá mér og fáum hefði ég treyst betur til þeirra vandasömu verka sem honum hefur nú verið falin.
Það er vel skipað í pláss þar sem slíkur maður er.