Ef marka má fréttir og viðtöl við formann Framsóknarflokksins er sjálfstæðisflokkurinn erfiður í taumi í samningum um skuldamál heimilanna. Formenn flokkanna hafa átt tvo langa fundi um málið án niðurstöðu, öfugt við fundi formanna Framsóknar með formönnum annarra flokka sem stóðu stutt og voru að sögn árangursríkir. Að minnsta kosti hefur ekki þótt ástæða til að framlengja þá eða halda þeim leyndum.
Þetta á í sjálfu sér ekki að koma á óvart enda hafa nokkrir þingmenn sjálfstæðisflokksins lýst yfir efasemdum sínum og jafnvel andstöðu við aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna. Vitað er af efasemdum Kristjáns Þórs Júlíussonar vara-varaformanns flokksins sem og andstöðu nýju þingmannanna, Brynjars Níelssonar og Vilhjálms Bjarnasonar, auk gamla refsins Péturs Blöndal sem hefur haldið hagsmunum sparifjáreigenda frekar á lofti en skuldara. Það er því ljóst að tæplega er meirihluti fyrir því að koma til móts við skuldug heimili ef þessir tveir flokkar mynda ríkisstjórn. Framsóknarflokkurinn þarf því að fá nokkuð fyrir sinn snúð gegn afslætti af kosningaloforðum sínum fyrir að mynda ríkisstjórn með sjálfstæðisflokknum.
Það er því spurning hvort vegur þyngra hjá Framsóknarflokknum, að mynda hægri stjórn með sjálfstæðisflokknum eða mynda stjórn með félagshyggjuflokkunum um skuldamál heimilanna – án afsláttar.
Nema annað ráði för.