Framsóknarflokkurinn er eini sigurvegari kosninganna, bætir við sig 10 þingmönnum og 9,6% á landsvísu. Samfylkingin er stærsti tapari kosninganna, tapar 11 þingmönnum frá kosningum (10 þegar tekið er tillit til þess að einn þingmaður yfirgaf flokkinn á kjörtímabilinu) og 16,9%. Björt framtíð er næst stærsti sigurvegari kosninganna, mætir til leiks með 6 þingmenn og 8,2% fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn er næst stærsti tapari kosninganna með næst lélegustu niðurstöðu flokksins frá upphafi eftir að hafa verið í stjórnarandstöðu, með 26,7% og 19 þingmenn. Vinstri græn tapa helmingi þingmanna sinna frá kosningum en þegar tekið er tillit til þess að þrír þingmenn yfirgáfu flokkinn á kjörtímabilinu tapa Vinstri græn 4 þingmönnum, fá 10,9% og skila 7 þingmönnum inn í næsta kjörtímabil.
Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin eru í sárum. Báðir hafa goldið afhroð, annar þeirra úr ríkisstjórn, hinn úr stjórnarandstöðu. Staða formanna þeirra beggja er veik, hvorugum tókst ætlunarverk sitt, hvorugur hefur flokk sinn heilan sér að baki.
Staða Bjarna er þó sterkari en staða Árna Páls sem er vægast sagt mjög snúin.
Bjarni er í skjóli þess að andstæðingar hans hafa engan líklegan við höndina sem getur ógnað honum eftir að Hanna Birna Kristjánsdóttir skráði sig sjálf úr leik stuttu fyrir kosningar. Bjarni hefur þó skamman tíma í því skjólinu til að safna vopnum sínum. Eina pólitíska lífsvon hans er að komast með flokkinn í ríkisstjórn og það eitt og sér dugar ekki einu sinni til. Formaður sjálfstæðisflokksins þarf að verða forsætisráðherra í ríkisstjórn sem jafnframt nær að leysa úr pólitískum átökum innan flokksins. Þar ber hæst deiluna um ESB umsóknina, kosningayfirboð um skattabreytingar og síðast en ekki síst hvernig leysa eigi fyrirsjáanlegar deilur á vinnumarkaðinum. Ekkert af þessu er líklegt að Bjarna Benediktssyni takist að gera sem aukaráðherra í ráðuneyti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Til þess þarf Bjarni að sýna meiri djörfung við myndun ríkisstjórna en forystumenn íslenskra stjórnmálaflokka hafa hingað til gert.
Annars er það formaður framsóknarflokksins sem hefur öll tögl og hagldir í málinu og ræður einn hvernig ríkisstjórn verður mynduð.