Afturhald - hvað er nú það?

Afturhaldsríkisstjórn er stjórn sem ýmist viðheldur ríkjandi ástandi  og kemur í veg fyrir frekari þróun, t.d. í atvinnumálum. Þannig stendur afturhaldssöm ríkisstjórn fyrir endurtekningum í atvinnulífinu, oft af þeirri ástæðu einni saman að verja sérhagsmuni einstakra hópa og verja þá fyrir ágangi þeirra sem vilja fara nýjar leiðir.

Afturhaldssöm ríkisstjórn er í eðli sínu þannig að hún forðast náin samskipti við aðrar þjóðir og gætir þess að innfæddir verði ekki fyrir óeðlilegum áhrifum frá „óviðkomandi aðilum“ og láti ekki freistast af boðum sem afturhaldssama ríkisstjórnin getur ekki boðið þjóð sinni sjálf upp á. Hún kýs frekar vosbúð fyrir þegna sína þótt gott atlæti sé í boði.

Afturhaldssöm ríkisstjórn gætir þess vandlega að raska ekki valdajafnvæginu í viðskiptalífinu, skipta jafnt á milli liðsmanna sinna og sjá til þess að ekki sé gert upp á milli þeirra.

Afturhaldssöm ríkisstjórn vakir yfir sínu og sínum. Tilvist slíkrar stjórnar byggist á hagsmunagæslu umfram allt annað. Hún á allt sitt undir því að njóta stuðnings þeirra sem þurfa á hagsmunagæslunni að halda. Afturhaldssöm ríkisstjórn fær pólitíska næringu í gegnum naflastreng sem liggur frá atvinnu- viðskipta- og fjármálalífinu inn í stjórnarráðið. Svo framarlega sem ekki verður klippt á strenginn mun afturhaldið lifa góðu lífi á Íslandi á kostnað almennings og með velþóknun sérhagsmunahópanna.

Allt er þetta vel þekkt. Um síðustu afturhaldsríkisstjórnina hafa verið skrifaðar bækur og gerðar rannsóknir, bæði hér heima og á erlendum tungum. Merkasta rannsóknin var birt í níu tölusettum bindum af rannsóknarnefnd Alþingis og er talin ein merkasta heimild sem til er á byggðu bóli um slíkt stjórnarfar.

Það er einmitt svoleiðis ríkisstjórn sem gæti verið í burðarliðnum.

Nema við klippum á strenginn á morgun.