Eitt af forgangsatriðum næsta kjörtímabils verður að afnema gjaldeyrishöftin sem sett voru á haustið 2008. Þetta er gríðarstórt verkefni sem þarf að nálgast með heildrænum hætti og þannig að fyrirtæki og heimili verði ekki fyrir tjóni. Ef óvarlega verður farið við afnám haftanna er mikil hætta á að gengi krónunnar falli hratt og mikið sem myndi leiða til óðaverðbólgu sem hefði gríðarleg, neikvæð áhrif fyrir heimili og fyrirtæki í landinu og þjóðarbúið í heild sinni.
Í umræðum um höftin hefur mest verið rætt um erlenda fjárfesta sem eiga kröfur í þrotabú gömlu bankanna. Með breytingum á gjaldeyrislögum hefur þessum sjóðum verið gert ljóst að fé þeirra getur ekki farið út úr íslensku hagkerfi nema að sýnt sé að það ógni ekki fjármála- og gengisstöðugleika. Þetta þýðir m.ö.o. að íslensk stjórnvöld meina þeim að fara með fjármuni sína úr landi nema gegn samningum við stjórnvöld. Því miður studdu framsóknar- og sjálfstæðisflokkur ekki nauðsynlegar lagabreytingar í mars 2012 sem gerðu stjórnvöldum kleift að verja hagsmuni landsins gegn kröfuhöfunum að þessu leyti. Flokkarnir tveir hafa hins vegar skipt um kúrs í þessu mikilvæga máli og hafa báðir gert það að kosningamáli sínu. Allir flokkar á Alþingi eigi síðan aðild að þverpólitískri nefnd sem stofnuð var um afnám haftanna. Í dag er því til staðar sú þverpólitíska samstaða um afnám haftanna og samninga við kröfuhafa sem ekki var fyrir hendi vorið 2012. Hins vegar er minna rætt um innlendu hrægammana, þ.e. þá innlendu fjármagnseigendur (oft fallnir útrásarvíkingar) sem eiga miklar eignir hér á landi sem þeir vilja koma í skattaskjól erlendis en geta ekki vegna gjaldeyrishaftanna. Þessir aðilar eru ekki síður sjóaðir í að flytja fjármagn á slíka staði en þeir erlendu eins og við getum lesið um í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Innlendu hrægammarnir vilja taka jafn lítinn þátt (helst engan) í uppbyggingu íslensks samfélags og óþolinmóðir erlendir kröfuhafar. Þar er enginn munur á. Því er mikilvægt að þeir fái sömu skilaboð og erlendu aðilarnir um að vera þolinmóðir og gangi út frá því að þeir komast ekki með peningana sína úr landi nema semja um það við íslensk stjórnvöld. Gjaldeyrishöftin verða því aðeins afnumin að tryggt sé að heimili og fyrirtæki verði varin enda á afnám haftanna fyrst og fremst að vera gæfuspor fyrir þjóðina en ekki fjármagnseigendur. Í þessu sambandi er rétt að benda á að sjálfstæðis- og framsóknarflokkur vilja gera líf þessara fjármagnseigenda bærilegra innan hafta með því að afnema auðlegðarskatt en hann skilar ríkinu 7 mia. kr. á ári.
Það er þeirra leið til að fóðra innlendu hrægammana sem flestir hverjir eru í tryggasta baklandi þessara tveggja flokka.