Þá liggur það endanlega fyrir að lán Seðlabankans til Kaupþings haustið 2008 og afleiðingar þess er stærsta einstaka mál Hrunsins. Um það hef ég áður fjallað hér á síðunni auk þess sem finna má athyglisverða pistla Sigrúnar Davíðsdóttur um þetta makalausa mál á vef RÚV, t.d. hér og þá ekki síður þennan hér.
Samanborið við önnur stór Hrunamál verður Kaupþingslánið okkur dýrara en Icesave auk þess sem við eigum sem betur fer fyrir því ljóta máli þó vissulega hefði verið betra að nota þá peninga í annað en klúður fjárglæframanna. Það kemur hins vegar í hlut okkar skattgreiðenda að borga fyrir Seðlabankamálið. Það eru engir aðrir til þess.
Enn veit enginn hvernig á því stóð að lánið til Kaupþings var veitt og hvað bjó þar að baki. Þrátt fyrir mikla eftirgangssemi fjárlaganefndar í næstum því heilt ár, tókst ekki að upplýsa málið. Að lokum var Seðlabankinn sjálfur tilbúinn til þess fyrir sitt leyti að veita nefndinni aðgang að þeim upplýsingum sem óskað var eftir í þessum tilgangi en þá var það stöðvað af öðrum sem telur hag sínum best borgið með því að upplýsa ekki um hans þátt í málinu.
Fjárlagnefnd skilaði Alþingi skýrslu um málið í byrjun febrúar þar sem samskipti nefndarinnar við Seðlabankann eru rakin og það sé niðurstaða meirihluta fjárlaganefndar að Alþingi verði að leiða málið til lykta. Það væri hægt t.d. með því að setja á fót sérstaka rannsókn á málinu, beita viðkomandi aðila frekari þrýstingi, leita til dómsstóla og fleira slíkt. En verkið verður að vinna. Það verður Alþingi til ævarandi skammar ef það heykist á því að upplýsa að fullu hvernig á því stóð að íslenskir efnahagsdólgar fóru svo illa með sameiginlega sjóði þjóðarinnar.