Ekki svo lítið ...

Hrunið á Íslandi er eitt stærsta fjármálahrun sem orðið hefur í heimssögunni. Fall Íslensku viðskiptabankanna er í hópi tíu stærstu gjaldþrota heims, þar af er fall Kaupþings þriðja stærsta gjaldþrot sögunnar. Því til viðbótar má bæta gjaldþroti Seðlabankans við þessi ósköp en það kostaði þjóðina hátt í 200 milljarða króna að gera bankann starfhæfan aftur. Fall Seðlabankans er stærsta einstaka mál Hrunsins í krónum og aurum talið. Á hverju ári greiðum við, skattgreiðendur í landinu, 6-8 milljarða í vexti af kostnaði við að reisa bankann við. Hér má lesa ágæta lýsingu og sundurgreiningu á kostnaðinum við Hrunið sem margir vilja að best sé gleymt og grafið.

Vegna Hrunsins var ríflega 200 milljarða tap á rekstri ríkisins. Það þýðir að það vantaði meira en 200 milljarða króna upp á að hægt væri að reka samfélagið, velferðarkerfið, heilbrigðiskerfið, menntakerfið, bótakerfið, almannatryggingakerfið og allt það sem gerir okkur að þjóð. Sjálfstæðis- og framsóknarflokkurinn vildu þá og vilja enn skera niður í útgjöldum til þessara málaflokka til að mæta þessum vanda. Það mun leiða til fullkominnar eyðileggingar á því samfélagi sem við þekkjum og viljum flest búa í.

Með því að afla tekna til móts við óhjákvæmilegan samdrátt í útgjöldum tókst að verja samfélagsgerðina frá eyðileggingu. Þannig var 216 milljarða rekstrarhalla snúið í jöfnuð í rekstri ríkissjóðs á síðustu fjórum árum. Samhliða tókst að koma í veg fyrir stórkostlegt atvinnuleys og forða velferðarkerfinu frá hruni.

Það er ekki svo lítið.