Grein Sigurðar Guðmundssonar fyrrverandi landlæknis í Læknablaðinu á dögunum undir yfirskriftinni „Hvenær verður heilbrigðisþjónusta að kosningamáli?“ hefur vakið talsverða athygli. Þar beinir Sigurður sjónum sínum að stöðu Landspítalans sem hann segir vera mjög slæma og jafnvel að þjóðarskömm sé hvernig komið er fyrir spítalanum. Það er margt til í þessari grein Sigurðar Guðmundssonar bæði varðandi stöðu Landspítalans en þó og ekki síður spurningin um hvenær (hvort?) heilbrigðismálin verða að kosningamáli. Páll Torfi Önundarson skrifaði einnig eftirminnilega grein af sama toga í haust þó tónninn hafi verið aðeins frábrugðinn þeim sem Sigurður slær í sínum skrifum.
Vorið 2009, við upphaf kjörtímabilsins, var rekstarhalli Landspítalans orðinn 3 milljarðar. Staða spítalans var þá svo slæm að þáverandi forstjóri spítalans sagði hann hafa orðið tæknilega gjaldþrota á árinu 2008 og hafi þá hvorki átt fyrir launum né lyfjum. Þannig kom sjálfur þjóðarspítalinn undan góðærinu svokallaða þrotinn að kröftum, fjárvana og tæknilega gjaldþrota. Reyndar er það svo að framlög til Landspítalans á fjárlögum drógust saman á hverju ári síðustu fimm árin fyrir Hrun og það er nú fyrst á fjárlögum 2013 sem tekst að snúa því við. Þó var ekki fjárskortur sem réð niðurskurði fyrri ára enda streymdu peningar á þeim árum um stræti og torg eftir því sem sagt var. Það var pólitísk áhersla stjórnvalda þeirra tíma að setja peninga ekki í heilbrigðiskerfið, heldur nota þá í annað. Sú áhersla kom fram í stefnu þeirra flokka sem þá réðu för. Stefna þeirra var að draga úr útgjöldum jafnframt því að draga úr tekjuöflun, lækka skatta og skera niður. Þessu var ekki haldið leyndu fyrir kjósendum heldur var þetta gert að kosningamálum sem hlutu brautargengi í kosningum eftir kosningar, kjörtímabil eftir kjörtímabil.
Sömu flokkar bjóða enn og aftur upp á sömu stefnumál, lækkun skatta með tilheyrandi niðurskurð í útgjöldum. Við vitum hvað það þýðir. Við vitum hvernig það fór með Landspítalann á sínum tíma og heilbrigðiskerfið í heild sinni. Það er því kannski ekki rétt að spyrja hvenær stjórnmálaflokkarnir ætli að gera heilbrigðismál að kosningamáli, það hafa þeir lengi gert. Réttara væri að spyrja hvenær kjósendur ætla að gera heilbrigðismálin að kosningamáli og verja atkvæðum sínum í samræmi við það?
Er kannski er komið að því núna?