Út er komin bók sem leiðir líkur að því að Íslendingar hafi verið plataðir til að mótmæla einhverju sem í raun og veru gerðist ekki haustið 2008. Atvinnuleysið, gjaldþrotin, skuldaklafinn, spillingin, gjaldþrot Seðlabankans og margt fleira hafi því verið blekking. Því er haldið fram að Álheiður Ingadóttir hafi blekkt þjóðina og narrað hana til að fella ríkisstjórnina sem færði okkur Hrunið. Hún á að hafa gert það í gegnum síma – gsm síma sinn úr þinghúsinu.
Það er auðvitað fjallað um þetta alvörumál í fjölmiðlum, síðast í þættinum Í bítið á Bylgjunni enda eru þáttastjórnandur þar, þau Heimir og Kolla, von að brjóta svona mál til mergjar og skilja ekkert eftir fyri hugmyndaflugið.
Að þessu sinni var leitað til fyrrverandi þingmanns Frjálslyndaflokksins, Grétars Mars Jónssonar, til að vitna um skipulag og stjórn Álfheiðar á mótmælunum. Eftir all ítarlegan inngang (nennti ekki að skrifa hann upp) hófst viðtalið við vitnið:
Heimir: Þú settir þig í samband við okkur í gær eftir umræðuna hér og í Reykjavík síðdegis og …
Grétar Mar (upplýsandi tónn): Mér blöskraði Heimir af því að ég sko varð vitni að því að Álfheiður Ingadóttir gekk á milli glugga í þinghúsinu og við vorum þarna uppi í kringlunni ein fjögur eða fimm og þar heyrði ég hana segja í síma: „Fariði hinu megin við húsið“.
Heimir (mjög hissa): Já.
Grétar Mar (ábúðafullur): Ég bara heyrði hana segja það.
Heimir (spyrjandi tónn): Þú segir, raunverulega ertu að segja það að hún hafi verið í beinu sambandi við alla vega hluta af mótmælendum.
Grétar Mar (frekar alvarlegur): Hún var að tala við son sinn sem var í mótmælunum fyrir utan.
Heimir (mikið niðri fyrir): Og hvað?
Grétar Mar (hissa): Og hvað? Hún var bara að segja honum að fara hinu megin við húsið. Það væri, hvort það var eitthvað autt þar eða hægt að komast að, það var nú umkringt eiginlega Alþingishúsið á þessum tíma og hérna svona umsátursástand og m.a. komust þingmenn ekki út á skrifstofurnar sínar sko nema í gegnum neðanjarðargöngin.
Heimir (eilítið undrandi): Og hverju ertu eiginlega að halda fram með þessu?
Grétar Mar (föðurlegur): Ég er bara að halda því fram að hún er ekki að segja alveg satt og rétt frá um sín afskipti eða afskiptaleysi af mótmælunum. Hún var að stýra þessu með einhverjum hætti ég veit náttlega ekki hvað mikið og hvort hún gat haft stjórn á einhverjum stórum hóp en að minnsta kosti syni sínum og hugsanlega kannski einhverjum vinum hans eða félögum.
Heimir (smá vonbrigði í röddinni): Já. Og þú segir, þið stóðuð þarna ein fimm – fjögur fimm.
Grétar Mar (færist heldur í aukana): Jú, við vorum, vorum fjögur, a.m.k. sem stóðum þarna eða vorum þarna í Kringlunni (Heimir hummar) þegar að það var búið að fresta þingfundi út af það var verið að bera þarna út þessa svo kölluðu nímenninga og handtaka þá og við vorum að fylgjast með því þarna uppi og það var mikill titringur og gauragangur í þinginu og ég fékk nú bágt fyrir það að hafa farið út um einhver neyðargöng sem eru undir þinghúsið og út í næsta hús við hliðina á þinghúsinu. Og hérna ég held að viti nú fáir af þessum göngum en (Heimir: ekki lengur reyndar) nei ekki lengur þetta er búið að koma í loftið áður. En hérna þetta var dálítið mikið spennu hátt spennustig og margir tens yfir þessu og …
Heimir (von góðum rómi): En þegar hún talar þarna í símann við þá eins og þú segir væntanlega son sinn eða einhver mótmælanda, rákuð þið upp stór augu þessi fjögur eða fannst ykkur þetta ekkert mál á þessum tímapunkti?
Grétar Mar (frekar hlutlaus): Jú, jú. Ég skynjaði alveg hvað var í gangi og hún var að skipta sér af þessu með einhverjum hætti ég náttlega vissi ekki nákvæmlega og heyrði ekki allt samtalið ég heyrði bara að hún sagði í símann: „Fariði hinu megin við húsið“. Og ég, svo er það aftur spurning er það alvarlegt að þingmaður sé að segja einhverjum til, það má nú líka. Það fóru nú fullt af þingmönnum út á Austurvöll og stóðu með fólkinu sem var að mótmæla stjórnvöldum og þ.á.m. ég og fleiri og ég veit náttlega ekki ég tók nú ekki þátt í að skipuleggja nein mótmæli sem slík en maður fór oft út á Austurvöll og stóð með fólkinu þar og spjallaði við það (Heimir: Hmmmm), þannig að ég veit ekki hversu alvarlegt það er í sjálfu sér sko.
Heimir (eins og sá sem veit meira en vill segja): Nei, það er ekki það sem hvetur þig til að koma fram og segja frá þessu.
Grétar Mar (með ábyrgri röddu): Nei, þetta er bara, mér finnst bara þegar fólk er að það þurfi bara að kannast við það sem það hefur verið að gera og segja það er svo aftur spurning um það hvað er óeðlilegt við það að þingmaður sé að segja einhverjum til (Heimir: Já).
Grétar (eins og allt hafi ekki verið sagt): Ha?
Heimir (líkt og eitthvað hafi verið gefið í skyn): Já. Það er nú það.
Kolla (komin til hjálpar): Samt var lögreglan búin að biðja fólk um að halda sig frá þessu svæði sem sagt ekki að vera þarna uppi í glugganum.
Grétar (hissa á spurningunni): Jú, ég skildi það nú að það hefði verið sko aðallega tengibyggingin á milli Alþingishússins og borðsalarins eða veitingaþjónustannar (Heimir: Já) . Það var verið að kasta, kannski ekki grjóti en það var verið að kasta einhverju í glugga og svoleiðis sko (Heimir: Já, þaenebbleaþa) og þingmenn héldu sig nú til hlés og voru nú ekki mikið úti í gluggum sko svona ekki alveg allaveganna við gluggana.
Heimir (vongóður): Já, en kannski bara svona að lokum að inna þig eftir því, fannst á þessum tímapunkta Grétar Mar þá fannst þér í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að hún væri að þessu eða hvað eða fannst þér það strax skrýtið?
Grétar Mar (yfirvegaður): Nei, í sjálfu sér sko þá var hún að skipta sér af þessu ég gat ekki betur séð heldur en að hún væri að skipta sér af því hvar (Heimir: Jú, jú) hvar mótmælin væru og færu fram við húsið (Heimir: Já, já) en þetta var svona panikk ástand en mér finnst að hún hefði nú bara getað sagt það bara eins og þetta var ég held að það væri miklu heiðarlega að segja bara hvernig hlutirnir voru ekki, að vera eitthvað að draga úr því að hún hafi verið, ég, ég, ef ég hefði átt krakka á Austurvelli þá hefði maður sjálfsagt verið hræddur um krakkann (Heimir: vissulega) í þessum gauragangi og látum sko.
Heimir (glaðlegur): Þannig að þér finnst hún ekki alveg hrein og bein í þessu, ha?
Grétar Mar (dapur tónn): Nei, mér finnst þetta soltið sorglegt hvernig hún er að segja frá þessu og ég náttlega þekki ekki samskipti hennar við þessa lífverði (Heimir: Nei) en það voru nú bara frábærir strákar (Heimir: já) sem voru þarna í sinni vinnu bara lögreglu menn og hérna að vinna sína vinnu og það voru náttleg og þetta voru svona titrings tímar þetta … (fjarar út í hlátri)
Heimir (hress): Grétar Mar Jónsson, fyrrverandi alþingismaður, bara kærar þakkir fyrir þetta spjall.
Grétar Mar: (hikandi eins og hann hafi vonast eftir meiru): Já, en … segjum það.
Heimir: Takk.
Samkvæmt framansögðu hefur Grétar Mar Jónsson vitnað um að Álfheiður Ingadóttir hefur stjórn á syni sínum.
Það á ekki við um alla foreldra.