Rétt eða rangt?

Í gær sendi ég að gefnu tilefni eftirfarandi tölvupóst á alla þá gesti sem sátu fund í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis fyrr um daginn:

„Á fundi efnahags- og viðskiptanefndar sem þú sast í morgun hafa borist þær fréttir að þar hafi komið fram að sérfræðingar í skattamálum hafi sagt skattkerfið hér á landi vera orðið svo flókið að það sé sérstakt vandamál. Jafnframt er haft eftir nefndarmanni að fram hafi komið á fundinum að skattar á Íslandi væru orðnir svo háir að það væri orðið réttlætanlegt að borga þá ekki. Í þessu sambandi vísa ég til þessarar fréttar.

Getur þú staðfest við mig að rétt sé eftir þér haft, efnislega, eins og fram kemur í fréttinni og það sé þitt mat að það sé sérstakt vandamál hvað skattkerfið hér á landi sé orðið flókið og þá í leiðinni að það sé þitt mat sömuleiðis að skattar hér á landi séu orðnir svo háir að réttlætanlegt sé að borga þá ekki, t.d. með því að ástunda skattsvik og undanskot frá skatti?“

Gestirnir svöruðu mér allir neitandi:

Svar 1: „Þetta sem þú nefndir er ekki eftir mér haft.“

Svar 2: „Ég sagði ekkert í þessa veruna.“

Svar 3: „Ég tjáði mig ekkert um þetta álitaefni á fundinum í morgun.”

Svar Ríkisskattstjóra hefur verið gert opinbert en þar segir m.a.:

Í okkar máli kom fram að skatthlutföll hefðu hækkað og því væri freisting til undanskota meiri en áður og slíkt væri að jafnaði skýring gjaldenda þegar komist hefði upp um undanskot. Við vorum að sjálfsögðu ekki að réttlæta það heldur greindum frá þeim sjónarmiðum sem heyrðust frá gjaldendum og víðar í samfélaginu hvað þetta varðar. Ríkisskattstjóri tekur að sjálfsögðu ekki undir afstöðu gjaldenda hvað þetta varðar.

Á sama fundi kom fram fyrirspurn um hvort ekki væri ástæða til að einfalda skattkerfið - væntanlega í víðasta skilningi þess orðs. Undir það tókum við en bentum m.a. á að margar tillögur og lagafrumvörp sem fram hefðu komið á Alþingi síðustu ár væru til þess fallnar að flækja skattheimtu og nefndum nýleg dæmi.“

Sem sagt: Enginn gestanna heldur því fram „að skattar væru orðnir það háir að réttlætanlegt væri orðið að borga þá ekki" eða að Skattkerfið sé orðið svo flókið að það í sjálfu sér sé orðið sérstakt vandamál.“

Breytir þá engu hverju er haldið fram um annað og af hverjum.