Atvinnuuppbygging í Norðurþingi

Íbúaþróun í Norðurþingi hefur verið afar neikvæð um langan tíma. Hægt en nokkuð örugglega tók atvinnulífið á svæðinu neikvæðum breytingum með tilheyrandi fólksfækkun eins og sjá má á línuritinu hér til hliðar. Fátt var gert til varnar þeirri þróun af hálfu ríkisvaldsins og opinberum störfum fækkaði jafnt og þétt. Það vantaði þó ekkert upp á að stjórnvöld og stjórnmálamenn hafi reglulega ýtt undir væntingar og kveikt vonir íbúanna um betri tíð með blóm í haga, sem reyndist lítil innistæða fyrir þegar á reyndi.

Í gærkvöldi fór fram umræða á Alþingi um tvö lagafrumvörp sem snúa að mikilli atvinnuuppbyggingu við Húsavík á vegum þýska fyrirtækisins PCC. Annars vegar er um að ræða frumvarp til laga um samninga við fyrirtækið og hins vegar til laga um uppbyggingu innviða í Norðurþingi vegna framkvæmdanna. Málin fara nú til umfjöllunar í atvinnuveganefnd þingsins og verða vonandi afgreidd sem lög frá Alþingi fyrir þinglok.

Atvinnuuppbygging í Norðurþingi er nú loksins að verða að veruleika eftir mörg mögur ár.