Landsfundur Vinstri grænna um helgina markaði að mörgu leiti tímamót í Íslenskum stjórnmálum. Katrín Jakobsdóttir tók við formennsku í flokknum eftir 14 ára formennsku Steingríms J. Sigfússonar og mun því leiða flokkinn í komandi kosningabaráttu sem verður ein sú mikilvægasta í sögu hans. Fyrir utan forystuskiptin sem vissulega skipta máli, samþykkti fundurinn ýmsar merkar ályktanir sem vísa leiðina til komandi kosninga.
Fyrst skal nefna ályktun um aðildarumsóknina að ESB en þar samþykkti fundurinn ályktun Þormóðs Loga Björnssonar kennara í Reykjanesbæ, um að ljúka beri við aðildarumsóknina og bera niðurstöðu samnings undir þjóðina. Landsfundurinn tekur þar með skýra afstöðu til þessa umdeilda máls þó meirihlutinn hafi vissulega ekki verið afgerandi.
Landsfundurinn samþykkti einnig ályktun um efnahagsmál þar sem áhersla er lögð að traust stjórn og framtíðarsýn í opinberum fjármálum sé forsenda þess að hægt sé að bregðast við skuldavanda heimila og fyrirtækja. Að öðrum kosti verður ekki ráðist að rótum vandans og þar með munum við aldrei komast út úr þeim efnahagslegu ógöngum sem þjóðin hefur verið að velkjast í síðustu áratugina. Markmiðið er að Ísland skeri sig ekki úr frá öðrum löndum varðandi skuldir, vexti og verðbólgu þannig að lífskjör á Íslandi verði sambærileg við það sem annars staðar gerist.
Landsfundur Vinstri grænna býður því hvorki upp á töfrabrögð né sjónhverfingar við vanda sem hvorki er auðleysanlegur né einfaldur viðureignar eins og aðrir stjórnmálaflokkar keppast við að gera.
Verkefnið er í rauninni frekar einfalt en það er erfitt, tímafrekt og kostnaðarsamt.
Það er einfaldlega blekking að halda öðru fram.