Sunnudagsmorgnar eru einhvern veginn öðruvísi en aðrir morgnar. Maður sefur aðeins lengur en venjulega, er lengur að koma sér í gang og lífið hægir heilt yfir aðeins á sér. Fer á löglegan hraða.
Ég reyni að nota sunnudagsmorgnana í rólegheit. Hlustaði stundum á Sirrý á RÁS 2, sötra Gulan Braga við eldhúsborðið, gríp í gítarinn og læt hugann reika.
Ég stillti hins vegar á Bylgjuna í morgun í einhverju hugsunarleysi. Þar heyrði ég í stjórnmálamanni sem kallaði pólitíska gagnrýnendur sína svín, sagðist ekki sjá eftir neinu sem hann hefði gert, allt hefði mistekist hjá öðrum og allt hefði það verið rangt sem gert hefur verið. Hann sagðist myndu afturkalla allar breytingar sem aðrir hefðu gert komist hann í færi til þess og koma baklandi Flokksins aftur til fyrri áhrifa. Síðast af öllu kvaðst hann vera að hugsa um að draga sig í hlé frá stjórnmálum enda hefði hann enga ástæðu til þess. Hann væri heldur ekki fyrir svoleiðis aumingjaskap.
Þessi maður var í fullkomnu ójafnvægi og sýndi í raun á sér allar hliðar þess manns sem hvorki má fela vald eða mannaforráð.
Kannski var þetta ort um svoleiðis mann:
Allt fór þetta á einn veg
ekkert veit ég sannara.
Allt er gott sem gerði ég
glöpin eru annarra.
Mikið megum við Íslendingar vera þakklátir fyrir þá lukku að hafa haft við höndina alvörufólk þegar á þurfti að halda til að stjórna landinu í kjölfar Hrunsins í stað þess sem var á Bylgjunni í morgun og hans líkum.
Ég skipti aftur yfir á Sirrý sem þá var orðin að Villa Naglbít, renndi einu sinni í gegnum Ease like sunday morning. Fann að ég þurfti að hafa fyrir sólókaflanum sem rekja má til skorts á æfingum.
Býst við að nota næstu sunnudagsmorgna til þess í rólegheitunum.