Seðlabanki Íslands varð tæknilega gjaldþrota (bls. 6) haustið 2008. Bankastjórinn sem stýrði honum í þrot heitir Davíð Oddsson, fyrrverandi formaður sjálfstæðisflokksins og núverandi ritsóði Morgunblaðsins. Þann 6. október 2008, daginn sem allt hrundi á Íslandi, lánaði seðlabankastjórinn í samráði við þáverandi forsætisráðherra Kaupþingi um 80 mia.kr. Þetta voru síðustu krónurnar sem eftir voru í bankanum. Allar reglur Seðlabankans við lánveitingar af þessu tagi voru þverbrotnar og báðir vissu þeir kumpánar að Kaupþing var að fara á hausinn og peningarnir myndu tapast að stórum hluta. Enn veit enginn hversvegna þetta var gert eða í hvað peningarnir fóru.
Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis (bls. 76) lýsir starfsmaður Seðlabankans stöðu bankans með þessum hætti: „Við vorum búnir að opna á allt, við vorum, kjallarinn í Seðlabankanum er fullur af brettum með handhafaskuldabréfum. Við vorum búnir að taka af þeim, við tókum af þeim allt sem þeir gátu afhent.“
Það kostaði nærri 200 mia.kr. að blása lífi í Seðlabankann að nýju. Árlegur vaxtakostnaður af gjaldþrotinu er á bilinu 7 – 8 mia.kr. Íslenskir skattgreiðendur bera þennan kostnað. Þetta er ein af ástæðum þess að lífskjör á Íslandi hafa versnað og munu verða lakari en þau ættu að vera í nánustu framtíð.
Í þessu ljósi öðlast hugtakið „blábjáni“ nýja merkingu við þennan lestur.