Það hefur líklega hefur ekki farið fram hjá nokkrum manni að nokkrar deilur eru uppi um frumvarp til nýrra náttúruverndarlaga. Eðli málsins samkvæmt fjallar frumvarpið um vernd, náttúruvernd, hvernig við eigum að umgangast náttúru Íslands og hver réttindi okkar og skyldur eru í þeim efnum. Meginmarkmið frumvarpsins er því að stuðla að vernd íslenskrar náttúru. Það gefur því auga leið að skiptar skoðanir hljóta að verða um frumvarp sem hefur svo yfirgripsmikið markmið þar sem hagsmunir margra kunna að skarast. Eitt eiga þó allir hagsmunaaðilar sameiginlegt, áhuga á íslenskri náttúru, vernd hennar ásamt því að sem flestir fái notið þeirrar fjölbreytni sem hún hefur upp á að bjóða.
Með því að vernda felst eðlilega takmörkun af einhverju tagi. Við takmörkum m.a. veiðiheimildir úr takmörkuðum fiskistofnum og veiðar á laxfiskum, fuglum og villtum dýrum eru takmarkaðar í þeim tilgangi að vernda og viðhalda. Ágreiningurinn um nýja náttúruverndarfrumvarpið varðar einkum hversu nærri megi ganga náttúrunni. Sumt af því sem haldið hefur verið á lofti í fjölmiðlum að undanförnu er á misskilningi byggt. Það er hægt að leiðrétta. Annað er vel þess virði að ræða frekar með það að markmiði að finna ásættanlegar leiðir og lausnir. Það er það sem nú er verið að gera í þinginu í samstarfi við þá sem málið varðar.
Það er hins -vegar nauðsynlegt að allir geri sér grein fyrir því að í svo stóru máli sem náttúruverndarlög eru, munu allir þurfa að gefa eftir og sættast á niðurstöðu sem sameinar áhuga okkar allra, þ.e. hvernig við getum verndað íslenska náttúru og viðhaldið henni til framtíðar. Um það held ég að sé órofa samstaða meðal allra sem láta sig málið varða.
Allt annað er meiningarmunur sem hægt er að leysa ef vilji er til þess.