Æ fleiri stjórnmálamenn tala nú opinberlega um nauðsyn þess að leggja til hliðar pólitísk átök og stríðsrekstur og taka þess í stað upp nýja siði í samskiptum stjórnmálamanna. Fátt vildi ég fremur. Gallinn við þessa umræðu er að hún kemur ekki frá stríðsrekstraraðilunum sjálfum heldur frá okkur hinum sem höfum reynt að fara fram með friði. Það er því ekkert nýtt í þessu eins og ég hef áður bent á. Á meðan okkur greinir á um leiðir og erum tilbúin til að tala fyrir þeim, bjóða kjósendum upp á valkosti, verður alltaf tekist á. Nema ætlunin sé að útiloka pólitík úr stjórnmálum.
Það er hinsvegar ekki lengur hljómgrunnur fyrir átakastjórnmálum af því tagi sem gömlu valdaflokkarnir, framsóknar- og sjálfstæðisflokkurinn, hafa boðið þjóðinni upp á í svo til hverju einasta máli allt kjörtímabilið. Og gera enn. Tími hinna pólitísku stríðsherra og flokka þeirra er liðinn.
En þar til þeir hafa meðtekið skilaboðin frá þjóðinni verða átök í stjórnmálum á Íslandi.
Annað er óumflýjanlegt.