Magnús Orri Schram skrifar pistil á síðu sína þar sem hann segist vonast til að lærdómurinn af Icesave-málinu verði að auka samráð og samvinnu við ákvarðanatöku á Alþingi. Þetta er hárrétt hjá Magnúsi Orra eins og vænta mátti frá honum.
Og Icesave-málið var einmitt þannig mál. Mál sem reynt var að vinna meira og minna þverpólitískt og í samráði og samstarfi við fjölda aðila utan sem innan þings.
Í kjölfar samningsins sem undirritaður var snemmsumar2009 hófst gríðarleg vinna í þinginu við að meta samninginn frá öllum hliðum. Fjárlagnefnd hafði forræði á málinu og kallaði til sín mikinn fjölda aðila víðs vegar að úr samfélaginu til ráðagerða. Grasrótarsamtök, lögfræðingar, embættismenn, sérfræðingar í fjármálum, erlendir og innlendir, stéttarfélög, atvinnurekendur og nánast allir þeir sem töldu sig hafa eitthvað um málið að segja áttu greiða leið að nefndinni með sjónarmið sín. Fulltrúar grasrótarsamtaka tóku að sér að vinna að málinu með stjórnvöldum. Gagnrýnir lögmenn og sérfræðingar á ýmsum sviðum sömuleiðis. Öll gögn sem nefndinni bárust voru þaullesin af þingmönnum og sérfræðingum innan sem utan stjórnkerfisins. Þingmenn með sérþekkingu á málum skipuðu sér í hópa, þverpólitískt, í þeim tilgangi að finna farsæla lausn á einstökum þáttum málsins. Formenn stjórnmálaflokkanna funduðu margsinnis um málið og umræður stóðu í þinginu mánuðum saman allt til ársloka 2009.
Ekkert mál hefur nokkru sinni í þingsögunni verið jafn ríkulega búið gögnum og Icesave-málið. Allt frá upphafi lágu öll gögn málsins fyrir og ekkert nýtt gagn kom fram eftir það sem varpað gat nýju ljósi á málið. Var þó eftir ýmsu kallað. Ekkert mál hefur verið rætt jafn ýtarlega og lengi og Icesave-málið, bæði í þingnefndum sem og á þinginu sjálfu.
Samninganefndin sem skilaði síðasta samningnum var skipuð þverpólitískt og laut forystu erlends sérfræðings, Lee Buchheit sem stjórnarandstaðan hafði krafist að kallaður yrði til verksins. Stjórnarandstaðan skipaði sína fulltrúa í samninganefndina og var upplýst reglulega um gang málsins rétt eins og stjórnarliðar.
Þingið greiddi þrívegis atkvæði um Icesave-málið, í ágúst 2009, lok árs 2009 og svo í byrjun árs 2011. Aðeins einu sinni fór atkvæðagreiðslan nokkurn veginn samkvæmt heðfbundnum línum stjórnar og stjórnarandstöðu, 52% sögðu já og 48% nei. Af þeim sem greiddu atkvæði þegar fyrstu lögin voru samþykkt sögðu 70% þingmanna já en 30% nei. Þegar tekið er tillit til þeirra sem greiddu atkvæði um síðustu lögin þá voru þau samþykkt með atkvæðum 73% þingmanna á meðan 27% voru á móti.
Eins og sést á þessu og er þó langt því frá allt til talið var Icesave-málið unnið þvert á flokka, með aðilum innan sem utan þings, var vel búið gögnum og naut að lokum stuðnings næstum 3/4 hluta þingsins.
Það var niðurstaða sem fékkst af þverpólitísku samráði og samvinnu allra þeirra sem voru tilbúnir til að leggja á sig að leysa þetta ömurlega mál.
Þetta voru vinnubrögð sem mörgum þingmönnum þótti framandi og tókst misvel að tileinka sér.
Í heild sinni gekk þetta þó vel og mun í framtíðinni verða tekið sem dæmi um góð vinnubrögð við stór og umdeild mál, þar sem þverpólitískt samráð og samvinna aðila með ólíkar skoðanir var haft í fyrirrúmi.