Kaupmáttur launa segir til um verðmæti þeirra peninga sem maður hefur til ráðstöfunar – svona í grófum dráttum. Það er síðan mælt eftir kúnstarinnar reglum hvort verðmætið minnkar eða eykst frá einu tímabilinu til annars. Á línuritinu hér til hliðar sést hvað kaupmáttarhrapið í kjölfar Hrunsins varð gríðarlegt með miklum áhrifum á lífskjörs fólksins í landinu. Kaupmáttur launa fer nú vaxandi og er nú á svipuðu róli og undir lok árs 2008. Eins og sést á þessum gögnum tók kaupmátturinn nokkuð við sér í kjölfar kjarasamninga sem gerðir voru á vinnumarkaðinum sumarið 2011 (sést betur ef myndin er stækkuð). Þeir samningar hafa verið nokkuð gagnrýndir m.a. af hagfræðingi Seðlabankans sem segir þá hafa verið verðbólguhvetjandi. Árni Páll Árnason formannsefni Samfylkingarinnar gagnrýndi samningana sömuleiðis nokkuð duglega og taldi m.a. ekki hafa verið innistæðu fyrir þeim. Illugi Gunnarsson þingflokksformaður sjálfstæðisflokksins hélt einnig því sama fram og hinir tveir í umræðum um fjárlög á Alþingi sl. haust.
Ég var og er enn þeirrar skoðunar að kjarasamningarnir sem gerðir voru sumarið 2011 hafi verið nauðsynlegir, jafnt fyrir vinnumarkaðinn, stjórnvöld og síðast en ekki síst launafólkið.