Loforð og veruleiki

Sjálfstæðismenn segjast ætla að lækka skatta komist þeir í færi ti þess. Það hafa þeir reyndar alltaf sagt fyrir allar kosningar og fengið einhver atkvæði út á það. Á myndinni hér til hliðar sést hinsvegar hvernig þau loforð hafa raungerst samkvæmt upplýsingum frá OECD. Þar kemur glögglega fram (rauða línan) að skattar á Íslandi sem hlutfall af þjóðarkökunni hækkuðu jafnt og þétt frá því sjálfstæðisflokkurinn tók við stjórn efnahagsmála hér á landi í byrjun tíunda áratugarins og allt fram að Hruni. Skattar hækkuðu sem sagt á tímabilinu en lækkuðu ekki eins og reynt er að telja fólki í trú um. Í samanburði við önnur lönd hækkuðu skattar hér á landi langt umfram það sem annarsstaðar gerðist. Þetta eru staðreyndir sem ekki þarf að deila um.

Það sem gerðist á þessum tíma var að skattbyrði milli- og lágtekjuhópa jókst frá ári til árs á meðan létt var á hátekju- og fjármagnstekjuhópum. Þetta eru líka staðreyndir sem ekki verður deilt um.

Loforð sjálfstæðismanna um að afturkalla skattabreytingar ríkisstjórnar Vinstri grænna og Samfylkingar komist þeir til valda er loforð um að lækka skatta á hátekjuhópa og fjármagnstekjur. Það eru jú þeir skattar sem hafa hækkað Hruni umfram aðra. Flokkurinn er því að lofa að auka ójöfnuð að nýju.

Þetta er ágætt að hafa í huga fyrir þá sem hafa áhuga á því.