Pólitísk taugaveiklun

Pólitísk taugaveiklun getur verið samfélaginu skeinuhætt. Hún  lýsir sér yfirleitt í því að stjórnmálamenn kikna undan skyndilegu álagi, fara á taugum og gera einhverja bölvaða vitleysu með ófyrirséðum og oftar en ekki alvarlegum afleiðingum.  Ein slík taugaveiklun er við það að ná hámarki þessa dagana. Það er ESB taugaveiklunin. Viðbrögð forystumanna Framsóknar- og sjálfstæðisflokksins við ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að hægja á aðildarviðræðunum fram yfir kosningar eru vísbending um að þeir uppfylli ekki hæfisskilyrði til að veita landinu forystu. Þeir fóru á taugum, skripluðu á skötunni og misstu fótanna. Sama hefur gerst hjá nokkrum stjórnarliðum á báðum endum málsins. Þeir töpuðu áttum og kunnu ekki að bregðast við. Jafnvel þeir sem segjast ætla að innleiða nýja hugsun og nýtt vinnulag í stjórnmálin brotnuðu saman og hrukku í hefðbundinn stjórnarandstöðugír. Þeir féllu á fyrsta prófinu.

Einhvern veginn eru það svo alltaf þeir sömu sem halda kúlinu og hafa stjórn á atburðarásinni alveg sama á hverju gengur.

Smávægilegt rask á tilverunni má ekki verða til þess að stjórnmálamenn missi allt niður um sig.

Það verður að ætlast til meira af þeim en það.