Hún er furðuleg kenningin sem haldið er á lofti um að fylgistap Vinstri grænna í könnunum megi rekja til aðildarumsóknar Íslands að ESB. Á hverju byggist sú kenning? Eru til einhverjar kannanir sem benda til þess að þannig sé?
Skoðum þetta aðeins.
Á heimasíðu Evrópuvaktarinnar er sagt frá könnun sem gerð var í mars 2011 um afstöðu kjósenda eftir flokkum til aðildar (ekki umsóknar) að ESB. Þar kemur fram að um 88% þeirra sem styðja Samfylkinguna vilja aðild Íslands að ESB, 20% framsóknarmanna, 30% sjálfstæðismanna og 40% vinstri-grænna. Athugið að þetta er hlutfall þeirra sem vilja aðild en ekki verið að spyrja um viðræðurnar sjálfar eða framhald þeirra.
Þegar það er hins vegar skoðað má á sömu heimasíðu sjá niðurstöðu könnunar sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði um afstöðu fólks til aðildarumsóknar Íslands að ESB. Þar kemur fram að rúm 30% kjósenda Sjálfstæðisflokksins vilja halda viðræðum áfram, rúm 90% kjósenda Samfylkingar, 25% Framsóknarmanna og rúmlega 55% kjósenda Vinstri grænna. Á síðunni er einnig sagt frá niðurstöðu könnunar sem Fréttablaðið gerði í lok árs 2011 á afstöðu fólks til áframhald viðræðnanna. Þar kom fram að 94,6% stuðningsmanna Samfylkingarinnar vildi ljúka viðræðunum og meðal stuðningsmanna Vinstri grænna sögðust 76,2 prósent vilja ljúka viðræðunum.
Fleiri slíkar vísbendingar benda til þess að afstaða stuðningsmanna Vinstri grænna sé önnur en haldið er á lofti í umræðunni. Má m.a. benda á að öll skref í þessu máli og allar ákvarðanir hafa ýmist verið teknar á flokksráðsfundum eða landsfundum Vinstri grænna og notið þar yfirgnæfandi stuðnings.
Í mínum flokki eru þeir til sem munu aldrei styðja aðildarumsókn að ESB eða aðild Íslands að bandalaginu, jafnvel þótt þeir þyrftu að vinna sér það til lífs. Þeir eru þó mun fleiri í Vinstri grænum sem telja málið í góðum farvegi, í öruggum höndum forystufólks flokksins í ríkisstjórn og á Alþingi og vilja fá niðurstöðu í það. Það á við um fólk sem er hliðhollt aðild sem og hinna sem munu aldrei leggja því lið að ganga í ESB.
Fólk vill einfaldlega niðurstöðu í deilumál í stað þess að halda deilunni áfram.
Fylgistap Vinstri grænna í könnunum hins vegar má að stórum hluta til rekja til þeirra sem hafa nýtt sér aðildarumsóknina til illdeilna og dregið þá mynd upp af flokknum að hann logi stafnanna á milli hennar vegna. Þetta er lítið samansafn pólitískra skemmtikrafta sem nýtur lítils stuðnings innan Vinstri grænna eins og margsinnis hefur komið fram á fundum æðstu stofnanaflokksins á kjörtímabilinu.
En þeir hafa náð að skemmta andstæðingum flokksins og draga úr fylgi hans.
Ég myndi veðja á að um eða innan við 10% þeirra sem kusu Vinstri græn síðast en segjast nú ekki ætla að snúa við honum baki, geri það vegna ESB málsins.
Er ekki einhver til í að kanna það fyrir okkur?