Betra að gleyma en muna

Langt í burtu býr fámenn þjóð í hrjóstugu og harðbýlu landi, sem heitir Langtíburtistan. Reyndar veit enginn hvað landið er langt í burtu, ekki einu sinni íbúarnir sjálfir sem ýmist finnst það vera rétt hjá eða í órafjarlæg. Þær raddist heyrast jafnvel að Langtíburtistan sé í raun og veru bara í langt í burtu frá sjálfri sér. En það er annað mál.

Það er hægt að segja margt gott um þessa fámennu þjóð sem hefur tosast áfram í gegnum aldirnar úr sárri fátækt í að vera ein ríkasta þjóð veraldar. Þeir tala tungumál sem engin skilur og þeir nota gagnslausan gjaldmiðil sem engum nýtist – ekki einu sinni þeim sjálfum.

Fyrir rétt rúmum fjórum árum fóru þau í Langtíburtistan næstum því á hausinn eftir að hafa gert margar ótrúlegar vitleysur. En eins og áður sagði þá má samt margt gott um þessa fámennu þjóð segja. Eftir mesta áfallið og eftir að hafa klórað sér í hausnum yfir því hvað gerðist, eða gerðist ekki eftir því hvernig á það er litið, ákvað þjóðin að láta rannsaka málið. Skipuð var sérstök rannsóknarnefnd sem skilaði þjóðinni ítarlegri skýrslu um málið. Þar kom margt ljótt fram sem þjóðin var ómeðvituð um þó marga hafi grunað eitt og annað. Rannsóknarnefndin sá ástæðu til að skrifa sérstakan kafla um sjálfan forseta Langtíburtistan og þátt hans í óförunum. Í skýrslunni segir m.a. að það „samrýmist illa hlutverki þjóðhöfðingja að hann gangi beinlínis erinda tiltekinna fyrirtækja eða einstakra fjárfesta“ eins og forsetinn gerði gjarnan. Skýrsluhöfundar virðast jafnframt furðu lostnir eftir rannsóknarvinnu sína og spyrja hverjum var forsetinn og embætti hans að þjóna og hvert á hlutverk forseta Íslands að vera?

Í skýrslunni er vitnað til ræðu sem forsetinn hélt á erlendum vettvangi þar sem hann mærði Langtíburtistra athafnamenn hvað mest sagði hann m.a. að „rök þessara athafnamanna eru að kunnáttan sem þeir hafa fengið á hinum íslenska  heimamarkaði geri þá hæfa til að keppa á stærri mörkuðum, jafnvel betur hæfa en aðra vegna þess að nálægðin og gegnsæið á hinum smáa íslenska markaði hafi verið þeim harður skóli.“

Hann vegsamaði viðskiptasiðferði auðmanna í Langtíburtistan sem einkenndist af einföldu (stundum engu) regluverki, fámennu hópastarfi athafnamanna, skjótum ákvarðanatökum þar sem sénsar voru teknir umfram ígrundaðar ákvarðanir og vinnumenning íslenskra stórfyrirtækja var til fyrirmyndar. Honum var tíðrætt um að „viðskiptalífið væri mjög árangursmiðað, gengið væri hreint til verks við að leysa verkefnin og minnisblöð og fundargerðir væru ekki að þvælast fyrir.“ Hann taldi það til kosta að í Langtíburtistan hefði framkvæmdagleði verið „laus við skriffinnskuaðferðir, hugsanlega vegna mannfæðar, en um leið fengju athafnamenn aukið frelsi.“ Forsetinn benti einnig á kosti þess að „samskipti mjög persónuleg, þau byggðust á trausti milli manna í fornum anda. Það gæfi færi á meiri hraða við ákvarðanatöku.“ Hann sagði að alla bestu kosti Langtíburtistra athafnamanna mætti rekja aftur til sögunnar þar sem   frumkvöðlahugarfarið hefði „þróast um aldir við veiðar og landbúnað þar sem frumkvæði einstaklingsins skipti sköpum í baráttu við náttúruöflin. Þetta hugarfar væri nú orðið drifkraftur í nútímaviðskiptum.“ Forsetinn taldi sköpunarkraftinn einn af yfirburðakostum Langtíburtistra viðskiptamanna enda hefðu Langtíburtistar „ætíð dáðst að skáldum sínum og sköpun þeirra, krafturinn væri nú „athafnaskáldanna“ sem nytu virðingar.“

Þegar útlendingar fóru að efast og spyrja gagnrýnna spurninga, setti forsetinn ofan í við þá og sagði „You ain‘t seen nothing yet,“ og hótaði frekari sókn íslenskra athafnamanna út í heim.

Listi forsetans yfir þá þætti sem gerðu útrásina og Langtíburtista svo magnaða var langur. „Fyrst nefndi hann vinnusiðferði, þá árangurssækni, áhættusækni, litla skriffinnsku, persónulegt traust, litla hópa þátttakenda sem ynnu þétt og hratt saman og tækju skjótar ákvarðanir, frumkvöðlaanda, arf landkönnunar og uppgötvana, orðstír einstaklinga, þjálfun sem menn fengju á íslenskum markaði, Langtíburtistar hefðu engin dulin markmið, náin tengsl milli fólks á Íslandi og loks var það sköpunarkrafturinn.“ Forsetinn sagði m.a. um útrásina að hún byggði „… á hæfni og getu, þjálfun og þroska sem einstaklingarnir hafa hlotið og samtakamætti sem löngum hefur verið styrkur okkar Langtíburtista“ og að  „lykillinn að árangrinum sem útrásin hefur skilað er fólginn í menningunni, arfleifðinni sem nýjar kynslóðir hlutu í vöggugjöf, samfélaginu sem lífsbarátta fyrri alda færði okkur, viðhorfum og venjum sem eru kjarninn í siðmenningu Langtíburtista.“

Forsetinn líkti Langtíburtistu samfélagi við ítalska endurreisn, renaissans, „þar sem blómaskeiðið byggðist jöfnum höndum um á viðskiptum, vísindum, listum og samfélagi fólks sem skarar framúr á ólíkum sviðum.“

Fjöldi sagnfræðinga gagnrýndi forsetann harðlega fyrir alhæfingar, þjóðernishroka og úreltar gamaldags túlkanir á sögunni sem ekki byggðust á nútímarannsóknum hvað þá nútímakenningum í sagnfræði.

Forsetinn lét alla slíka gagnrýni sem vind um eyrun þjóta og færðist heldur í aukana eftir því sem gagnrýni á hann jókst.

Hann ferðaðist um heiminn þveran og endilangann með Langtíburtistum viðskipta- og útrásrarmönnum og á þeirra kostnað oft á tíðum. Tengsl hans við þá var svo náið og innilegt að „telja má „Sigurð meðal helstu samstarfsmanna forsetans á síðari árum.“ en Sigurður þessi var einn af forystumönnum Langtíburtistra útrásarmanna.

Forsetinn tók að sér að í krafti embættis síns að greiða viðskiptamönnunum leið að erlendum stjórnvöldum. Hann opnaði banka, kæligeymslur, lyfjafyrirtæki, hélt fyrirlestra, tók þátt í ráðstefnum, skrifaði ófá meðmælabréf fyrir útrásarmennina, hélt mörg skemmtileg boð á Bessastöðum og talaði máli Langtíburtistra auðmanna á erlendum vettvangi hvenær sem hann fékk færi á því. Svo langt gekk þetta að bústaður forseta Langtíburtistans var notaður til að undirrita samninga milli einkafyrirtækja innfæddra og erlendara aðila. Þá varð sumum orðið um og ó og þingmaður einn „gagnrýndi þetta og sagði athöfnina ekki við hæfi embættisins og að sem betur fer væri forsetaembættið ekki orðið ehf.“

Skýrsluhöfundar segja að ljóst megi „vera að forsetinn gekk mjög langt í þjónustu við einstök fyrirtæki og einstaklinga sem stýra þeim eins og hann hefur sjálfur viðurkennt nokkrum sinnum eftir hrunið.“ Bent er á að forsetinn hafi ekki komið „að stjórnvaldsákvörðunum en hann ber ásamt fleirum siðferðilega ábyrgð á því leikriti sem leikið var í kringum foringja útrásarinnar og fyrirtæki þeirra. Þau reyndust ekki vera í neinu frekar en keisarinn í sögu H.C. Andersen.“

Það er því vel skýrt að „… að nokkrir þeirra eiginleika sem forsetinn taldi útrásarmönnum til tekna eru einmitt þeir þættir sem urðu þeim og þjóðinni að falli“ eins og segir í skýrslunni.

Nú deila íbúar Langtíburtistan um hvort forsetinn sé snillingur eða „bjáni“ og þá hvort megi benda á það opinberlega rétt eins og gert var með nekt keisarans sem vitnað er til í skýrslunni. Fréttastofur hafa fjallað um málið, leitað er álits forystumanna í Langtíburtiskum stjórnmálum og það er rætt í umræðuþáttum fjölmiðla. Á meðan er forsetinn hafður að háði og spotti í heimalandi sínu þar sem innfæddir vita fátt skemmtilegra en hæðast að þessum æðsta embætismanni sínum. Varla er gerður sá skemmtiþáttur í landinu að ekki sé gert grín af forseta landsins og áramót ganga aldrei svo í garð í Langtíburtistan að þjóðin veltist ekki um af hlátri yfir framsetningu skemmtikrafta á oft á tíðum kostulegri framgöngu forsetans.

Langtíburtistar eru ekki mjög stoltir af sögu útrásarinnar og flíka því skýrslunni góðu lítið hvað þá að þeir hafi snarað henni á erlendar tungur. Þeir telja margir hana best geymda á Langtíburtisku sem enginn skilur nema þeir. Þeim finnst oft best að ræða ekki erfið mál. Vilja frekar gleyma þeim en muna.

Við Íslendingar erum hinsvegar öðruvísi og öðrum fremi eins og venjulega, mótaðir af sögunni, lífsbaráttunni og seiglunni - þjóð sem hefur „ ... þróast um aldir við veiðar og landbúnað þar sem frumkvæði einstaklingsins skipti sköpum í baráttu við náttúruöflin.“

Þess vegna höfum við fært skýrsluna um Langtíburtistan á okkar eigið tungumál (m.a. umfjöllunina um forseta landsins frá og með bls. 170) og getum því lesið hana hvenær sem er ef við viljum.

Og munað hana ef við viljum.

Ef við viljum.