Jólin 1980 voru að mörgu leiti eftirminnileg. Kona mín og ég héldum okkar fyrstu jól saman og hún var komin að því að fæða barn sem lét svo bíða eftir sér fram yfir áramót. Jólin héldum við saman með tengdamömmu og verðandi mágum mínum, þrem ferskum náungum sem létu sér ekki leiðast þessi jól frekar en önnur. Mér hafði verið falið að verða okkur út um jólatré og Maggi vinur minn benti mér á að best væri að fara á vel valin stað í Heiðmörk í þeim tilgangi. Bauðst meira að segja til að keyra mig þangað ef ég vildi enda vanur maður. Sjálfur var ég vanur gervitré heima í Ólafsfirði enda lítið um skóga þar og illa hægt að treysta á samgöngur til að koma alvöru trjám í plássið.
Um hádegi á Þorláksmessu lögðum við svo af stað í leiðangurinn, ég og Maggi vinur. Á leiðinni sagði hann mér sögur af fyrri ferðum sínum með fjölskyldu sinni í Heiðmörk til að velja jólatrá fyrir jólin. Allt mjög fallegar sögur og jólalegar. Hann stoppar síðan á stað sem hann segir að megi finna góð tré, opnar skottið á bílnum og nær í stóra og mikla öxi sem hann réttir mér en segist sjálfur ætla að bíða í bílnum meðan ég næ mér í mitt fyrsta jólatré. Eftir talsverða leit finn ég tré, lítið og vel vaxið til jóla og byrja að höggva. Um það leiti sé ég hjón með hund standa álengdar og horfa á mig. Karlinn kallar eitthvað til mín sem ég heyrði ekki hvað var. Hann leggur svo af stað til mín ég veifa öxinni í átt til hans glaður í bragði enda kominn í jólaskap. Þá heyri ég konu hans kalla á hann og þau hverfa í burtu með hundinn. Ég drösla síðan tréinu af stað í átt að bílnum. Ég sé hóp fólks á gönguferð nálgast bílinn. Þegar ég kem að bílnum liggur Maggi vinur niður í sæti sínu svo hann sjáist ekki og hvæsir á mig að drífa mig áfram. Ég treð tréinu í aftursætið og svo er brennt af stað í bæinn aftur. Fólkið stoppar horfir á eftir okkur. Það liggur vel á Magga sem segir mér á milli hláturkastanna að það sé stranglega bannað að höggva tré á þessum stað enda um verndaða skógrækt að ræða. Karlinn með hundinn hafi verið frekar æstur og verið að reyna að kalla til mín að þetta væri bannað en konu hans ekki litist á þegar ég veifaði öxinni í átt að honum.
Ég hafði verið hafður að fífli og það hvorki í fyrsta né síðasta sinn.
Tréið fór upp í stofuna og hafði verið skreytt upp úr og niður úr þegar tengdamamma kom heim um að kvöldi Þorláksmessu. Ég hafði borið þá von í brjósti að synir hennar myndi þegja yfir því hvernig það var til komið en þar ætlaðist ég til of mikils af þeim. Á sjálfan aðfangadag, rétt áður en klukkur Ríkisútvarpsins hringdu inn jólin og tengdamóðir mín var að dáðst af tréinu (sem var fallegt og ilmandi) töldu þeir að rétta stundin væri runnin upp til að tilkynna henni um að tréið væri stolið og þjófurinn væri verðandi tengdasonur hennar. Þeir þóttust hneykslaðir.
Öll jólin mátti þessi góða og guðhrædda kona búa við stolið jólatré í stofunni sinni af mínum sökum. Ég sá um tíma engan mun á augnaráðinu sem hún sendi tréinu annarsvegar og mér hinsvegar.
Tréið var saklaust en ég átti það skilið.