Mennta- og menningarmálaráðherra hefur loksins upplýst þjóðina um sunnudagsmessur sem hafa verið hulu sveipaðar allt of lengi. Það var þó ekki fyrr en þingmaður sjálfstæðisflokksins krafðist upplýsinga um málið í krafti stöðu sinnar að upp komst um hvernig messurnar hafa verið mannaðar síðustu tíu árin eða svo.
Nú liggur það sem sagt fyrir að messað hefur verið í útvarpinu a.m.k. í áratug og sömuleiðis hverjir hafa staðið þar að verki.
Það kemur í ljós þegar listinn yfir presta í tíðniröð er skoðaður að Karl Sigurbjörnsson biskup trjónir á toppnum enda annað varla við hæfi. Næstur á eftir honum kemur svo Hjálmar Jónsson prestur í Dómkirkjunni og fyrrverandi þingmaður Flokksins og þ.a.l. hafinn yfir grun um eitthvað misjafnt.
En svo fer nú að myrkvast yfir málinu eins og sagt hefur verið.
Á tíðniröð listans kemur dúkkar allt í einu upp nafn Hjartar Magna Jóhannssonar Fríkirkjuprestur sem mun hafa messað 12 sinnum yfir þjóðinni síðasta áratuginn. En hvað segir það okkur? Akkúrat ekki neitt! Það sem við þurfum að vita er hvað hann sagði, ekki hvað oft hann sagði það. Var hann kannski að fagna úrsögnum úr þjóðkirkjunni eins og hann gerði um árið?
Næst á eftir honum kemur svo Sigríður Guðmarsdóttir prestur í Grafarvogskirkju sem hefur ellefu sinnum fengið aðgang að hljóðnema Ríkisútvarpsins á sunnudagsmorgnum. Ég hef sjálfur sótt all nokkrar guðs þjónustur hjá Sigríði. Hún sagði mér reyndar sjálf að hún héldi að það væri til að dást að loðnum fótleggjum hennar. En það var ekki bara þess vegna, heldur líka til að hlusta á hana messa um trúmál í tengslum við hið daglega líf sem henni tókst betur að gera en flestir aðrir að mínu viti. En það er líka þannig sem áróðurinn verður ósýnilegur. Þegar maður heldur að meistarinn sé vinur manns. Um hvað ætli sú kerling hafi verið að ræða við þjóð sína í gegnum útvarpið? Kannski um umhverfismál og náttúruvernd? Jafnvel að það hafi eitthvað með trú og kirkju að gera? Vís væri hún til þess.
Neðarlega á listanum má svo sjá nafn Kristínar Þórunnar Tómasdóttur sem hefur messar í þrígang yfir okkur í genum útvarpið. Hvaða boðskap ætli sá ágæti prestur hafi viljað koma á framfæri við þjóðina í gegnum útvarp allra landsmanna? Eitthvað grænt kannski? Eru kannski allir búnir að gleyma því sem hún skrifaði á vef kirkjunnar um sjálfbæra þróun og náttúrvernd? Og hótar því svo í lok pistilsins að gera kirkjuna sýnilega á þessum vettvangi! Hvað á hún við? Er Kristín Þórunn einhverskonar byltignarsinni, jafnvel kommúnisti? Er þingmanni sjálfstæðisflokksins alveg sama um þetta?
Það er sjálfsögð og eðlileg krafa að þjóðin fái útprentun af ræðum þeirra presta sem hafa messað yfir þjóðinni síðustu tíu árin. Þessar ræður mætti síðan birta og vista á heimasíðu Flokksins. Umræddir prestar gætu síðan setið fyrir svörum í höfuðstöðvum Flokksins og svarað ásökunum sem eðlilega þeim munu beinast að þeim í kjölfar uppljóstrana þingmanns sjálfstæðisflokksins.
Það er ekki nóg að vita hvað oft þeir töluðu. Nú verðum við að fá að vita um hvað þau töluðu.
Það verður að upplýsa þetta mál - allt málið og ekkert hálfkák.