Vandi Íbúðalánasjóðs er varðaður mörgum stórum mistökum langt aftur í tímann eins og lesa má í nýlegri skýrslu um sjóðinn. Árið 2004 var t.d. gerð mikil kerfisbreyting á húsnæðislánum og fjármögnun sjóðsins sem hefur haft það í för með sér að sjóðurinn fjármagnaði sig til langs tíma með lánum sem hann getur ekki borgað upp á meðan lántakendur sjóðsins greiða lán sín upp í gríð og erg. Þannig myndast mikil vaxtaáhætta fyrir sjóðinn (munur á vöxtum sem hann greiðir af sínum lánum og sem hann fær af uppgreiddum lánum) sem hefur sett sjóðinn í mikinn vanda. Kosningaloforð framsóknarflokksins um 90% lán til íbúðakaupa og komið var í framkvæmd í samstarfi hans við sjálfstæðisflokkinn og þannig kynnti undir eignabóluna sem síðan sprakk í andlitið á okkur og rýrði mjög eignir sjóðsins. Stóraukin útlán Íbúðalánasjóðs til verktaka hefur kostað hann gríðarlegt tap. Sjóðurinn á nú um 700 íbúðir á Suðurnesjum einum og hundruð íbúða um land allt vegna óvarlegra útlána til verktaka og yfirframboðs á íbúðum af þeim sökum. Fleira mætti til telja í langri röð ótrúlegra mistaka sjóðsins sem oftar en ekki má rekja til pólitískra afskifta af honum, oftast nær af hálfu framsóknarflokksins.
Nú er hinsvegar komið að skuldadögum. Ríkissjóður (við) hefur þegar lagt 33 milljarða í sjóðinn til að halda honum á floti og mun væntanlega bæta 13 milljörðum í púkkið á næstu dögum. Viðbúið er að enn vanti háar upphæðir til viðbótar á næstu árum til að forða honum frá endanlegu þroti.
Glórulaus áralöng pólitísk afskifti af Íbúðalánasjóði eru þannig að verða eitt stærsta einstaka Hrunamálið og er þó af nógu að taka af því taginu.