Tímamót

Meirihluti fjárlaganefndar afgreiddi í gær frá sér umfangsmiklar breytingartillögur á fjárlagafrumvarpi næsta árs. Rétt eins og fyrstu fjárlög sem samþykkti voru á Alþingi eftir Hrun vitnuðu um þann gríðarlega vanda sem þjóðinni var komið í er fjárlagafrumvarp næsta árs til vitnis um að nú sé viðsnúningurinn orðin að veruleika. Í fyrsta sinn frá Hruni er verið að snúa af braut niðurskurðar og samdráttar. Í fyrsta skipti frá Hruni finnum við nú loksins viðspyrnu og getum farið að rétta aftur úr okkur. Fjárlagafrumvarp næsta árs markar því tímamót í uppbyggingarstarfinu sem staðið hefur yfir sleitulaust frá Hruninu 2008.

Efiðleikar undanfarinna ára eru þó ekki að baki þó vindurinn sé ekki beint í fangið eins og hingað til hefur verið. Efnahagsástandið er viðkvæmt, bæði hér heima sem erlendis og því má lítið út af bera ef ekki á illa að fara. Efnahagsstjórn áranna fyrir Hrun ætti einnig að hræða alla frá því að fela sömu aðilum landsstjórnina að nýju. Verðlagsáhrifin af því að fela sjálfstæðisflokknum aftur stjórn efnahagsmála myndu líklega að sliga heimilin og fyrirtækin í landinu að fullu, þeim sem á annað borð lifðu af Hrunið sem Flokkurinn leiddi yfir okkur.

Vítin eru til að varast þau.

Þess ber þó að geta og halda vel til haga að enn á eftir að gera upp nokkur Hruna mál og þau sum af stærri gerðinni. Ber þar helst að nefna Íbúðalánasjóð sem varð fyrir áföllum upp á tugi milljarða vegna Hrunsins, mest megnis vegna kolrangra ákvarðana fyrri stjórnvalda fyrri tíma. Það lendir á okkur öllum að borga fyrir það eins og annað, því miður. Fleiri slík mál má telja til, öll af sama toga óstjórnar og mistaka.

Ég mun á næstunni fjalla ítarlegar um fjárlagafrumvarp næsta árs, árangur sem náðst hefur á undanförnum árum ásamt því sem út af stendur og bíður okkar að takast á við í framtíðinni.