Vinstri græn verða með forval í Reykjavík á morgun. Á sama tíma halda sjálfstæðismenn í borginni sitt prófkjör. Það ræðst því á morgun hvaða fólki þessi andstæðu pólar í íslenskum stjórnmálum munu skipa til verka næsta kjörtímabil. Í þeim pólitísku átökum sem átt hafa sér stað hér á landi frá Hruni hefur verið tekist á um meginhugmyndir um hvernig atvinnulíf við viljum skapa úr gjaldþrota rústum Hrunsins. Hægrimenn hafa óragir haldið á lofti gömlum og lúnum hugmyndum um risaverksmiðjur knúnar áfram af niðurgreiddri orku. Þeir hafa barist hatrammi baráttu gegn nýjum hugmyndum í grunnatvinnuvegum þjóðarinnar og þeir standa fastir fyrir þegar tekist er á við um að auka vægi lista, menningar og skapandi greina.
Hægrimenn eru stoltir fulltrúar gamalla og úr sér genginna hugmynda.
Ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar hefur á kjörtímabilinu hefur lagt sig fram um að treysta og efla fleiri stoðir atvinnulífsins og auka þannig jafnt fjölbreytni í atvinnulífinu og skjóta í leiðinni fleiri stoðum undir efnahagslíf landsins. Þannig hafa framlög til hinna skapandi greina aldrei aukist jafn mikið og á yfirstandandi kjörtímabili. Aldrei áður hafa fulltrúar menningar og lista verið kallaðir að borðinu sem fulltrúar atvinnulífsins til jafns við aðra. Aldrei áður hafa skapandi greinar verið nefndar á nafn í áætlunum stjórnvalda um fjárfestingar í atvinnulífinu.
Þrátt fyrir allt og sama hvað hver segir þá liggja fyrir sú staðreynd að fár ef nokkrar þjóðir Evrópu hafa náð að snúa allt að því vonlausri stöðu sér í vil með jafn áhrifaríkum hætti og Ísland á síðustu þrem árum. Þetta hefur tekist án þess að grípa til gömlu úreldu ráðanna sem svo ákaft er kallað eftir á hægrivæng stjórnmálanna. Engin erlendur auðhringur hefur fengið aðgang að sameiginlegum auðlindum og engin risaverksmiðja gangsett með orku á útsöluverði.
Við höfum hafnað gömlu hugmyndunum, innleitt nýjar og aukið á fjölbreytnina. Það er það sem hægrimennirnir óttast. Þeir óttast nýjungar. Þeir óttast breytingar.
Um þetta stendur valið á morgun hér í Reykjavík. Gamlar og úr sér gengnar leiðir í atvinnumálum eða nýjar áherslur í anda þeirra sem innleiddar haf verið síðustu þrjú árin.
Ég hef í störfum mínum á Alþingi lagt áherslu á að auka fjölbreytni í íslensku atvinnulífi og draga fleiri að því borði þar sem atvinnumál eru rædd. Það hef ég gert í störfum mínum í atvinnuveganefnd, sem fulltrúi Vinstri grænna í fjárlaganefnd og aðkomu minni að fjárfestingaráætlun stjórnvalda.
Ég mun hér eftir sem hingað til leggja mitt að mörkum við að færa íslenskt efnahags- og atvinnulíf til nútímans og standa jafnframt fast gegn gömlum og úreltu hugmyndum þeirra hægrimanna sem eru að fara í prófkjör í Reykjavík á morgun.
Til þess þarf ég að fá stuðning í forvali Vinstri grænna í Reykjavík sem nú stendur yfir.
Ég gef kost á mér í 1. – 2. sæti framboðslista Vinstri grænna í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu í næstu Alþingiskosningum.